154. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[13:39]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Ég geri mér grein fyrir því að einhverjir áhorfendur eða áheyrendur hafi hugsanlega verið efins þegar ég nefndi það í lok síðustu ræðu minnar að hluti af þessum áformum öllum, sem ganga á rétt neytenda og kjör alls almennings, væri líka að flugvélar mættu ekki hafa meira eldsneyti en akkúrat það magn sem dugar til að komast á áfangastað. En þetta er bara staðan. Þetta er meira að segja sýnt á myndrænan hátt í kynningarefni Evrópusambandsins og er þá til þess ætlast að menn séu ekki að kaupa eldsneyti einhvers staðar þar sem það er ódýrara og séu ekki með það þungar flugvélar að þær eyði minna eldsneyti. Þær eiga því að komast þetta á síðustu dropunum. Þetta gengur gegn flugöryggismálum. Fyrir vikið þá sýnir það kannski hversu langt mennirnir eru leiddir í einhverri hugmyndafræði án tengingar við raunveruleikann.

En nú er komið að því, frú forseti, að ég ætla að segja nokkur orð um raunveruleg áhrif málsins eða tilætluð áhrif og þá einkum hver þau áhrif yrðu á Íslandi. Hér vitna ég nú bara í gögn frá stjórnvöldum, frá ríkisstjórn Íslands og Stjórnarráðinu. Þessi gögn voru notuð til að rökstyðja hvers vegna Ísland gæti ekki með nokkru móti fallist á þessi áform þar til menn gáfust svo upp í ráðherrabústaðnum til að skemma ekki Evrópumannahátíðina. Í þessum gögnum birtist mjög fróðlegt línurit, áhrifamat fyrir Ísland heitir það. Ég er búinn að margbiðja, frú forseti, fjórum sinnum alla vega, um að fá þennan glærupakka í heild því að hér vantaði glæru sem sýnir spá um það hvernig fjöldi flugferða mun þróast. Enn hef ég ekki fengið þessa glæru þrátt fyrir fjórar tilraunir á löngum tíma en sem betur fer get ég þó stuðst við aðra glæru um áhrifamatið fyrir Ísland. Það er glæran um losun kolefnis, hvernig hún muni þróast. Þar segir að samdrátturinn í losun sé fyrst og fremst til kominn vegna færri flugferða. Þannig að tölurnar eru mjög svipaðar því sem birtist í línuritinu um fjölda flugferða.

Göngum þá bara út frá því að það sama eigi við hér og þetta séu áhrifin á fjölda flugferða. Þá er matið það að ef fram héldi sem horfir og ekki yrði gripið inn í af hálfu Evrópusambandsins og ríkisstjórnarinnar þá yrði flug — ég held að upphafsárið sé 2019 — til og frá Íslandi orðið 136% af því sem það var 2019, þ.e. hefði aukist um 38% frá því sem þá var. En með tilkomu þessara nýju reglna, sem þingið er að reyna að keyra í gegn á ótrúlegan hátt, þá verður flug eftir tvo og hálfan áratug rúmlega, 26–27 ár, akkúrat einn fjórði af því sem það var 2019 — einn fjórði af því sem það var 2019 og þá innan við 20%, innan við fimmtungur af því sem það hefði orðið ella.

Þetta eru svo engin smámarkmið, frú forseti, sem menn ætla sér að ná með þessum refsisköttum á almenning enda er það viðurkennt í áformum Evrópusambandsins að þetta snúist um að neyða fólk til að hætta að fljúga. (Forseti hringir.) Við getum rétt ímyndað okkur hvort ekki verði heldur takmarkaður hópur á Íslandi sem getur nýtt sér flug.