154. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[14:00]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Mér finnst vera tilefni til að vekja athygli á því hversu fáir þingmenn taka til máls um þetta risamál, þetta skelfilegasta Evrópumál sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar höfðu séð, nú þegar reynt er að troða því og hraða því í gegn í trássi við hefðbundin þingsköp á ógnarhraða. Þá vilja menn helst ekki tjá sig. Hv. þingmenn meiri hluta eru margir væntanlega smeykir við að verja þetta. Ég veit ekki með minni hlutann, kannski eru það bara einhverjir sem vilja fyrir alla muni að þetta fari sem hraðast í gegn, áhrif Evrópusambandsins aukist og grænir refsiskattar á landsmenn aukist sem mest. Þó tók hv. þm. Samfylkingarinnar, Þórunn Sveinbjarnardóttir, aðeins til máls hér áðan. Mig minnir að það hafi verið í andsvari, eða líklega ræðu, annaðhvort var það, en a.m.k. benti hv. þingmaður á að eftir árið 2026 væri aðlögunartíminn búinn. Þetta væri ekkert spurning um að finna upp einhverjar nýjar lausnir í millitíðinni. Markmiðið væri bara að aðlögunartíminn væri búinn og menn komnir inn í þetta kerfi af fullum krafti. Já, þetta kom í tengslum við andsvar hv. þm. Njáls Trausta Friðbertssonar sem lýsti yfir áhyggjum af óvissunni en að við yrðum bara að vinna að því að það gerðist eitthvað gott eftir 2026. Þá kom hv. þingmaður Samfylkingarinnar og var ánægður með það mat sitt, sem er eflaust rétt mat frá sjónarhorni Evrópusambandsins, að eftir árið 2026 væri aðlögunartíminn búinn og menn væru komnir inn í kerfið. En þá leyfir þessi ríkisstjórn sér að halda því fram, maður veit ekki alveg hvort hún trúir þessu sjálf eða ekki, að eftir að við erum búin að gefa eftir þá muni Evrópusambandið hugsanlega seinna vera til í að koma meira til móts við okkur en það hefur verið nú þegar. Hver getur talið sjálfum sér eða öðrum trú um slíkt? Það er algerlega fráleitt að ímynda sér það að eftir fundaherferðina — fundina 200 eða hvað þeir voru sem skiluðu nú ekki miklum árangri nema hvað að allir sögðust skilja hvað Íslendingar væru að fara að mati hæstv. utanríkisráðherra á þeim tíma en ákváðu svo að gera ekkert með það þrátt fyrir fullan skilning og 200 fundi — haldi ríkisstjórnin, eða þykist a.m.k. halda það, að málið muni einhvern veginn leysast þegar við erum búin að gefa eftir.

Aðeins að þessu sérstaka samkomulagi, sérstakri aðlögun fyrir Ísland eins og það er kallað í frumvarpinu, áður en ég kem að siglingamálum. Þetta varðar flugið, með leyfi forseta:

„Sérstök aðlögun fyrir Ísland.

Íslensk stjórnvöld gerðu samkomulag við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um aðlögun Íslands við ákvæði tilskipunar (ESB) 2023/958.“ — Svo er rakið hér að hagsmunir Íslands í málinu hafi snúist um jafna samkeppnisstöðu flugfélaga og flug til og frá Íslandi o.s.frv.

Þá er komið að því hvað felst í aðlöguninni fyrir Ísland, þessum tímamótasamningi. Það eru þrír liðir:

„1. Ísland getur framlengt núverandi kerfi endurgjaldslausra losunarheimilda út árið 2026 þegar endurgjaldslausri úthlutun losunarheimilda verður hætt innan Evrópska efnahagssvæðisins.“

Þetta er fresturinn, frú forseti, þessi tveggja eða þriggja ára frestur á að hefja þessar greiðslur, en þetta er reyndar hvort eð er aðlögunartíminn í Evrópusambandinu. (Forseti hringir.)

Frú forseti. Ég verð nú að taka undir með hv. þm. Bergþóri Ólasyni. Mér þykir tíminn hjá þér líða heldur hratt og bið því um að fá að koma aftur á mælendaskrá.