154. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[14:44]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Ég ætla að breyta aðeins uppröðuninni hjá mér frá því sem ég boðaði í síðustu ræðu. Áður en ég kem að viðbrögðum ráðherranna ætla ég að segja nokkur orð um aðdraganda málsins og eðli þess, því að mér var e.t.v. svo heitt í hamsi að ég gleymdi að fara fyllilega yfir það hversu mikil áhrif þetta hefur. Jú, ég nefndi að þetta myndi hafa mikil áhrif á flutningskostnað en hversu mikil áhrif og hvernig munu þau áhrif birtast? Ég ætla þó að byrja allra fyrst á því að lesa upphaf fréttar úr Morgunblaðinu frá 12. ágúst 2023. Mig minnir að það hafi verið Morgunblaðið sem upplýsti almenning fyrst um að þetta stæði til og fjallað um málið, eðli þess og framkvæmd og ræddi við marga sem starfa í þeim greinum sem verða fyrir áhrifum af þessu. En fyrst bara smákynning, svo ég geri þetta allt í réttri röð. Þetta er upphaf fréttar eftir Ólaf E. Jóhannsson:

„Áform eru uppi um að nýleg tilskipun Evrópusambandsins, sem m.a. fellir vöruflutninga á sjó undir svokallað ETS-kerfi losunarheimilda ESB á 5.000 brúttótonna skipum og stærri, verði tekin upp í EES-samninginn, en til þess að hún fái lagagildi hér á landi þarf að samþykkja hana á Alþingi.“

Þarna er þegar bent á þetta. Það er staðan sem verið er að setja okkur í núna, að ætlast til þess að þetta verði samþykkt á Alþingi.

„Einnig þurfa þau ráðuneyti sem hlut eiga að máli að setja reglugerðir til innleiðingar á ákveðnum ákvæðum tilskipunarinnar, verði hún lögleidd.“

Þarna komum við að því sem ég mun nefna á eftir varðandi ráðherrana og hugarfar þeirra, viðhorf þeirra til þessa máls. Það er hlutverk þeirra að setja reglugerðir til innleiðingar á ákvæðum tilskipunarinnar, verði hún lögleidd. Ég óttast að það gæti gerst hér á Alþingi núna. Þá vita menn hvað gerist næst. Þessir ráðherrar, eins traustir og þeir eru í málinu, ég kem inn á það á eftir, munu þá setja reglugerðirnar til innleiðingar.

„Fari svo munu skipafélög þurfa að standa stigvaxandi skil á heimildum vegna losunar í siglingum; 40% vegna losunar árið 2024, 70% vegna losunar árið 2025 og 100% árið 2026 og þaðan í frá.“

Þetta er svipað og ég nefndi varðandi flugmálin með þennan aðlögunartíma, frú forseti, frá 2026 er þetta 100% í skipunum.

„Þetta kerfi er helsta stjórntæki ESB á sviði loftslagsmála og ætlað að mynda hagrænan hvata til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í sambandinu.“

Þá komum við enn og aftur að þessu, að það á að refsa fólki fyrir að vera til, kaupa vörur og ferðast. Það felur að sjálfsögðu í sér ákveðna mismunun. Hinir tekjuhærri geta augljóslega frekar leyft sér sömu hluti og áður heldur en hinir tekjulægri. Og svo er sagt að hér verði kostnaðurinn líklega 6 milljarðar á ári til að byrja með. Þá minni ég á það sem ég nefndi áðan, að þegar Evrópusambandið er komið með þetta vald yfir okkur, þetta tangarhald, þá getur það bara haldið áfram að þróa þetta og verðið getur hækkað og kröfurnar aukist o.s.frv.

En hvað sem því líður er ljóst að þessir 6 milljarðar munu hafa mjög veruleg áhrif. Þetta mun hafa áhrif á vöruverð enda flutningskostnaður beintengdur vöruverði en hefur líka áhrif á þá þjónustu sem er í boði. Þetta hefur nú þegar komið í ljós, hefur þegar komið fram hjá stjórnendum a.m.k. eins af skipafélögunum að það geti ekki annað en brugðist við þessu með því að draga úr þjónustu við ákveðna staði, fækka stöðum sem siglt er á. Eins og svo oft (Forseti hringir.) þá bitnar þetta fyrir vikið verst á landsbyggðinni sem fær minni þjónustu og hærra verð.

Frú forseti. Ég verð að biðja yður að setja mig aftur á mælendaskrá, ég er ekki langt kominn með þennan hluta umfjöllunar minnar.