154. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[15:09]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Eins og fram hefur komið þá höfum við þingmenn Miðflokksins fallist á að takmarka umfjöllun okkar verulega hér við 2. umræðu þessa máls til að liðka fyrir þinglokum nú í aðdraganda jóla. Við vorum tilbúnir að gera þetta í ljósi þeirrar breytingartillögu sem fram er komin og studd er í nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar þess efnis að ráðherra málaflokksins verði uppálagt að gefa árlega skýrslu um framvindu samskipta við Evrópusambandið, greiningu á efnahagslegum áhrifum kerfisins eins og það kemur fyrir og með hvaða hætti nauðsynlegt er að bregðast við. Hugsunin er sú að við höfum tækifæri til þess hér í þinginu og ráðherra sé beinlínis uppálagt að nálgast þetta með þeim hætti að þingið geti stigið inn í ef verstu sviðsmyndir eru að raungerast, þ.e. að kerfið eins og það er taki við fyrir flug á Íslandi og íslenska flugrekendur 1. janúar 2027. Og þegar ég segi að ef stefni í að versta sviðsmyndin raungerist þá er það alvarlega í stöðunni að það er líka líklegasta sviðsmyndin, það verði niðurstaðan. Ég minni á það sem ég las hér upp úr nefndaráliti meiri hlutans um með hvaða hætti viðbrögð Evrópusambandsins voru við samtölum við hagsmunagæslumenn Íslands.

Ég get ekki sleppt því að gagnrýna tímarammann sem okkur í þinginu er gefinn til að ræða þetta mál. Málið kemur inn þegar eru bara nokkrir þingdagar eftir og umræðan markast öll af því. Við eigum engan möguleika á glöggva okkur á þessum 14 gerðum sem hér er verið að innleiða, gamlar og uppfærðar eftir atvikum og glænýjar. Umræðan hefur meira og minna öll hverfst um tvær af þessum 14 gerðum en þær fara allar 14 í gegn hér á færibandinu síðar í dag.

Við erum hér að innleiða kerfi sem er smíðað utan um samfélög sem eru gjörólík íslensku samfélagi. Við erum að undirgangast kerfi sem gengur út á það að troða fólki sem vill ferðast með flugi í járnbrautalestar. Slíkar höfum við engar hér á landi. Það er hreinlega alveg ótrúlegt að við séum í þeirri stöðu að það sé búið að hræða líftóruna úr fyrirtækjum landsins eins og umsagnir Icelandair og Play bera með sér, þau beinlínis kalla eftir því að vera rassskellt með þeim vendi sem hér er á lofti. Það er af því að búið er að ramma það þannig inn með þessu samkomulagi sem Ursula von der Leyen plataði upp á Katrínu Jakobsdóttur, hæstv. forsætisráðherra, að við erum komin á færibandið. Við erum komin inn í einstefnulokann. Það sem tekur við 1. janúar 2027 er bara kerfið eins og það er. Það sem tekur við siglingarhlutanum er kerfið eins og það er, strax. Í því samhengi verð ég að rifja upp aftur og minna á umsögn PCC sem lýsir því og dregur fram að ofan á allt annað sé þetta sérstaklega mótdrægt atvinnurekstri á landsbyggðinni.

Var þetta markmið ríkisstjórnar Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í raun? Það passar ekki við það sem haldið er fram í aðdraganda kosninga. En hér er þetta sett fram eins seint og nokkur kostur er til að takmarka umræðuna eins og hægt er. Þannig að við stöndum hér þingmenn Miðflokksins á síðasta þingdegi fyrir jólahlé með sleggjuna hangandi yfir okkur þar sem því er haldið fram að ef þetta verði ekki samþykkt fyrir áramót þá verði hér einhvers lags ragnarök. En ragnarökunum er lýst í umsögn Icelandair, svo dæmi sé tekið, þar sem er sagt: Ef þetta verður eins og það er, þetta kerfi, 1. janúar 2027 þá er sviðsmyndin ekki björt. En það er það sem mætir okkur. Það er ekkert sem bendir til þess að meintir viðsemjendur í Evrópusambandinu, Brussel, í þessum efnum hafi nokkurn áhuga eða skilning á því, bara út frá orðum sem þegar hafa fallið í bréfi Ursulu von der Leyen annars vegar og í samskiptum embættismanna við embættismenn.

Kæri þingheimur. Ég vona að það takist að bjarga í horn eins og nokkur kostur er hvað þetta regluverk varðar. En það er alveg agalegt að við séum hér að innleiða regluverk og leggja það yfir íslenskt samfélag og íslensk fyrirtæki sem er sniðið að allt öðrum hagsmunum heldur en við erum undirorpin hér á okkar ágæta Íslandi.