154. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2023.

skattar og gjöld.

468. mál
[15:15]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Teitur Björn Einarsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir framhaldsnefndaráliti frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum um skatta og gjöld. Nefndin fjallaði um málið á milli 2. og 3. umræðu og fékk til sín gesti frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Í nefndaráliti er gert grein fyrir þremur breytingartillögum sem ég ætla að fara hér yfir. Í fyrsta lagi er meiri hlutinn að leggja til að fresta gildistöku a-liðar 11. gr. frumvarpsins, þar sem meiri hlutinn telur að kanna þurfi áhrif ákvæðisins betur og afla þurfi frekari upplýsinga um þá sem kunna að verða fyrir áhrifum þegar ákvæðið tekur gildi.

Í annan stað, frú forseti, fjallaði nefndin um breytingartillögu sem var lögð fram við frumvarpið við 2. umræðu og fjallar um tímabundna niðurfelling á virðisaukaskatti til ökutækjaleigna vegna endursölu rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbifreiða. Í meðförum málsins hjá nefndinni kom fram ábending frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu um ákveðna textabreytingu til að gæta samræmis við þau ákvæði sem væri alla jafna að finna og fellst nefndin á þá breytingu eins og gert er grein fyrir í nefndaráliti.

Þá er í þriðja lagi fjallað um þá breytingu sem nefndin leggur til sem er að heimila björgunarsveitum endurgreiðslu á vörugjaldi vegna kaupa á bensíni. Um þetta mál er það að segja, frú forseti, að nefndin hafði þetta til umfjöllunar og bárust umsagnir, m.a. frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg þar sem farið var yfir hvernig sveitin fjármagnar sig og hvaða ívilnanir væru veittar í lögum til handa björgunarsveitum landsins. Get ég þar nefnt t.d. niðurfellingu vörugjalda á innflutningi tækja og tóla sem sveitin notar og niðurfellingu á olíugjaldi. Úr varð að nefndin skoðaði mjög hvort hægt væri að útfæra sambærilegt ákvæði um vörugjöld á bensíni.

Ég ætla líka að nefna að í því frumvarpi sem liggur fyrir þinginu og varðar töku kílómetragjalds á hreinorkubifreiðar er jafnframt að finna ákvæði um undanþágu til handa slysavarnafélögum og björgunarsveitum landsins. Þar sem lá fyrir nefndinni var að fara yfir það að á undanförnum árum hefur orðið sú breyting og sú þróun hjá björgunarsveitum landsins að tæki og tól sem áður voru dísilknúin hafa á síðustu árum farið að verða bensínknúin. Þetta á ekki eingöngu við um ökutækin, þetta eru hvers konar farartæki; snjósleðar, fjórhjól, jafnvel björgunarbátar sem sveitirnar hafa verið að taka í notkun. Bensínnotkun sveitanna hefur því verið að aukast en þar er ekki að finna afslátt á vörugjöldum eins og gilti um afslátt á olíugjaldi vegna dísilvéla. Ýmsar útfærslur á þessu voru til skoðunar og áttum við ágætissamvinnu við fjármála- og efnahagsráðuneytið og Skattinn. Þegar málið kom til 2. umræðu var það og útfærsla á því ekki útrædd innan nefndarinnar en við meðferð málsins milli 2. og 3. umræðu hafði nefndin tök á að klára þessa útfærslu og hún er lögð til eins og gerð er grein fyrir í nefndaráliti.

Ég vil bæta því við að tillagan um að björgunarsveitir fái endurgreitt vörugjald á bensíni samkvæmt því fyrirkomulagi sem er verið að leggja til, er sett inn í bráðabirgðaákvæði. Það er gert af þeirri ástæðu að fyrirséð eru áform stjórnvalda um heildarendurskoðun á skattlagningu eldsneytis og ökutækja, m.a. í tengslum við það frumvarp sem ég nefndi áðan, um kílómetragjald á hreinorkubifreiðar. Það er að verða þróun í þessum efnum, tækninni fleygir fram. Það sem verið er að horfa til jafnframt í tengslum við þetta eru þær alþjóðlegu skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist, m.a. loftslagsmarkmið. Þess vegna er lagt til, í ljósi þessara breytinga sem eru að verða á umhverfinu, að taka þurfi jafnframt til skoðunar hvernig björgunarsveitir landsins njóta beins og óbeins stuðnings í formi ívilnana gagnvart bensíni og eldsneyti og vörugjöldum og komið verði á fót starfshópi sem dómsmálaráðherra skipi og fjármögnun björgunarsveita verði skoðuð með heildstæðum hætti með tilliti til þeirra atriða sem nefnd hafa verið.

Ég vil þó nefna tvennt í þessu samhengi. Ef um er að ræða þessi umhverfissjónarmið, að björgunarsveitum verði gert kleift að fara úr jarðefnaeldsneytisdrifnum ökutækjum og farartækjum yfir í rafmagnsökutæki og hreinorkutæki, þá er sú þróun ekki alveg á næsta leiti, þ.e. að öll tæki og tól björgunarsveita geti verið þannig rafmagnsdrifin að hægt sé að skjótast upp á jökla í óveðrum klukkustundum eða sólarhringum saman í 20 stiga frosti. Sú þróun er ekki alveg á næsta leiti þannig að við verðum að gæta að því að björgunarsveitirnar hafi áfram tök á því að sinna sínu mikilvæga starfi í þágu landsmanna allra og ferðamanna sem koma hingað til lands og heimsækja landið.

Það er líka hægt nefna að í því losunarheimildakerfi sem kemur frá ESB og hefur verið til umræðu í þessum sal í dag, ber að líta til þess að þar sem eru undanþágur í því losunarkerfi kolefna er það varðandi leit og björgun a.m.k. í flugi, og þá má sjá þess stað varðandi skipin. Það er undanþegið í þessum heimildum. Þessi tillaga sem meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar leggur fram telst að mínu mati og meiri hlutans vera eðlileg í ljósi þessa og samræmast að því leytinu til loftslagsmarkmiðum stjórnvalda eins og þau eru lesin saman við loftslagsmarkmið Evrópusambandsins sem við erum í samstarfi við.

Það verður líka að segja frá því að þessi þróun sem ég var að lýsa hérna áðan, að björgunarsveitirnar hafa verið að færa sig úr þessum dísilknúnu bifreiðum yfir í bensínbíla sem eru umhverfisvænni og sparneytnari, er líka jákvætt skref í sjálfu sér. Það er sú þróun sem er að eiga sér stað. Þessi breyting miðar að því að hraða mögulega þeirri þróun, hvað svo sem verður í framtíðinni, að björgunarsveitir sem og aðrir landsmenn geti fært sig úr jarðefnaeldsneytisdrifnum ökutækjum yfir í hreinorkufarartæki. Það er þá eitthvað sem við höldum áfram að vinna með. En eins og ég segi, þessari undanþágu er ætlað að gilda í eitt ár meðan þessi mál eru skoðuð heildstætt.

Ég vil fyrir mitt leyti segja, frú forseti, að ég tel þetta góða tillögu, ég tel hana rétta. Það sé eðlilegt að þingið sameinist um að leita allra leiða til þess að koma til móts við og styrkja björgunarsveitir landsins með réttum og tilhlýðilegum hætti. Það er það sem við erum að stefna að og ég held að allir geti verið sammála um það markmið. Það eru auðvitað ýmsar hugmyndir uppi um hvernig hægt er að gera það. Þessi leið var fyrir valinu af því að það væri hægt að bregðast við þannig, við komumst að því í okkar vinnu, en líka af því að hún gagnast öllum björgunarsveitum landsins, hvar sem þær starfa, þess vegna fámennum sveitum í dreifbýlinu sem þurfa að reiða sig mikið á og eiginlega eingöngu á ökutæki sem eru knúin jarðefnaeldsneyti. Það skiptir þessar sveitir algeru lykilmáli í sinni fjármögnun að geta fengið stuðning með þessum hætti.

Að þessu sögðu legg ég til þessar breytingartillögur fyrir hönd meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar og þær fari til umræðu eins og lagt er til og verði samþykktar.

Undir þetta álit rita, auk þess sem hér stendur, hv. þingmenn Jóhann Friðrik Friðriksson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir, Vilhjálmur Árnason og Guðbrandur Einarsson.