154. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2023.

fjáraukalög 2023.

481. mál
[17:16]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þingflokkur Viðreisnar ætlar að greiða atkvæði með þessu máli. Veigamesta ákvörðunin hér snýst um húsnæðisstuðninginn fyrir íbúa Grindavíkur og við þekkjum söguna þar að baki. Ég verð hins vegar að koma hér upp og fjalla sérstaklega um vinnubrögðin í því máli. Einum degi fyrir áætluð þinglok barst fjárlaganefnd beiðni um fjármagn fyrir kaupum á 80 íbúðum. Þá hafði verið unnið að kaupferli í um þrjár vikur. Búið var að taka við 1.200 tilboðum og samþykkja 80 með fyrirvara um fjármögnun. Fjárlaganefnd hefur ekki verið upplýst um það hvernig valið fór fram. Upplýsingar um fjármögnunarferlið sjálft bárust í gær en ekki fyrr en við vorum sérstaklega búin að óska eftir gögnum. Sölukostnaður í málinu er áætlaður 400 milljónir fyrir 80 íbúðir án þess að það sé rökstutt. Vinnubrögðin í þessu máli verða ekki útskýrð með því að hér hafi verið tímaþröng því að baki er nokkurra vikna vinna innan innviðarannsins. Að þessu sögðu þá látum við þessi vinnubrögð ekki koma í veg fyrir stuðning okkar við Grindvíkinga á þessum tíma og styðjum aðgerðirnar. En ég vil nefna þessi vinnubrögð. Þau eru óboðleg.