154. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2023.

fjáraukalög 2023.

481. mál
[17:19]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Ég hef ítrekað gefið ríkisstjórninni og stjórnarflokkunum umhugsunartíma og umhugsunarfrest til að skoða raunverulega hvað liggur í þeim breytingartillögum sem við í Flokki fólksins erum að boða. Í þessu tilviki erum við að reyna af fremsta megni að draga úr dauðsföllum einstaklinga með fíknisjúkdóminn. Við erum að reyna að koma þeim af dauðalistanum. Hér erum við að óska eftir fjármagni sem í rauninni kemur SÁÁ bara til að halda jafnvægi, fjármagni sem þeir nauðsynlega þurfa á að halda til þess að geta haldið út þeirri þjónustu sem þeir hafa kost á en vantar til þess fjármagn. Ég veit það ekki, við sjáum það hér bara á þessari töflu, land og þjóð og hv. þingheimur, hvernig þessi stjórnvöld hafa hugsað sér að taka á þessum dauðans alvörusjúkdómi þar sem um 100 einstaklingar deyja af hans völdum á hverju einasta ári og þar af um 50 algerlega ótímabærum dauða og stór hluti þeirra á þessum biðlista sem ég er að reyna að stytta.