154. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[17:36]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Stærsta og þýðingarmesta verkefnið núna í efnahagsmálunum og ríkisfjármálunum er að ná tökum á verðbólgu. Fyrir liggur dómur Seðlabankans um hlutlaust fjárlagafrumvarp sem er dómur um að þetta frumvarp geri í sjálfu sér kannski ekki illt verra en það er hið eina framlag stjórnvalda við þetta stærsta og þýðingarmesta verkefni núna. Það vekur líka athygli að þegar framlag ríkisstjórnarinnar í baráttunni við verðbólgu er ekkert þá getur hún samt hugsað sér að skilja heimilin eftir án þess að fá nokkurn stuðning til þess að glíma við afleiðingarnar. Við höfum gert athugasemdir við það. En þegar við erum að ræða verðbólgu þá þarf líka að flagga því að ríkisstjórnin er að boða framhald á verulegum lántökum á næsta ári, rándýrum lántökum, og það má ekki gleymast þegar við erum að tala um verðbólguna að hún bítur ríkissjóð líka. Við sjáum að ríkissjóður er, rétt eins og heimilin, að sprengja sig á vaxtakostnaði. Í því ljósi er ótrúlega alvarlegt hversu máttlítil skref er hér verið að stíga í þessu stærsta verkefni núna.