154. löggjafarþing — 53. fundur,  16. des. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[18:14]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Það var ágæt umræða hér fyrr í dag um þetta málefni. (Gripið fram í: Hófleg…) Já, hófleg. Það er mikilvægt að tímalínan sé skýr og hvað var sagt hvenær, það skulum við alltaf hafa í huga þegar við erum að ræða þetta og reyna að hafa upplýsta umræðu um málin. Það er ljóst í þessu máli og í umsögnum flugfélaganna, Icelandair og Play, að þau leggja gríðarlega áherslu á að þetta mál sé samþykkt hér í þinginu. Það á ekki að fara fram hjá nokkrum hv. þingmanni sem hér situr. Ég vildi koma hingað upp vegna þess að mér fannst víða í umræðunni í dag farið frjálslega með staðreyndir máls og slíka hluti. Þetta er gríðarlega mikilvægt fyrir eina stærstu atvinnugrein okkar, flugið, og auðvitað ferðaþjónustuna sem hluta af henni. Það þarf að halda hlutum til haga og það er mikilvægt að halda hlutum til haga þegar við ræðum hérna grundvallarhagsmunamál okkar Íslendinga.