154. löggjafarþing — 56. fundur,  22. jan. 2024.

Staða mála varðandi Grindavík, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:35]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Það þarf ekki að rekja frekar stöðuna í Grindavík fyrir þingheimi, við vitum öll hversu alvarleg hún er. Við vitum líka öll að verkefnið er stórt og sennilega fordæmalaust. Ég fór á íbúafund Grindvíkinga í síðustu viku og þar fann maður vel fyrir sjokkinu, kvíðanum og vanlíðaninni sem hlýtur að fylgja ástandi sem þessu og ekki má vanmeta. Óvissan er Grindvíkingum erfiðust og ég leyfi mér að efast um að óvissan hafi minnkað eftir blaðamannafund ríkisstjórnarinnar klukkan hálftvö í dag. Við ætlum að taka óvissuna í fangið, sagði hæstv. fjármálaráðherra. Það er virkilega fallega sagt en segir því miður ekki neitt. Reyndar fylgdi svo síðar í ræðu ráðherrans að hún vildi að fólk fengi að ráða ráðum sínum sjálft og gæti fjárfest á nýjum stað. Einnig var talað um að Grindvíkingum yrði tryggt eigið fé en enn er ekki ljóst hvernig að því verður staðið eða við hvað verði miðað til að reikna út eigið fé fólks. Það er samt sem áður mjög gott og veitir Grindvíkingum örugglega von að vita að þeim verði séð fyrir eigin fé þó að ekki sé ljóst hvenær það verður eða undir hvaða formerkjum það verði gert. Og þar stendur hnífurinn einmitt í kúnni. Óvissan hefur verið framlengd og Grindvíkingar sitja enn fastir í því tímabundna ástandi sem þeir eru í núna. Fólk sem er fast í krumlum leigufélagsins Ölmu hefur ekki enn fengið nein svör. Fólk sem býr í sumarhúsum, inni á ættingjum eða í iðnaðarhúsnæði, sem ekki er mannsæmandi, hefur ekki enn fengið nein svör. Ákall Grindvíkinga er mjög skýrt en svörin eru óskýr.

Á íbúafundinum í síðustu viku tóku margir Grindvíkingar til máls. Eins og áður þá dáðist ég að yfirvegun þeirra sem voru á fundinum og hversu málefnaleg og skýr þau voru sem tóku til máls. Ein þeirra sem tók til máls var Bryndís Gunnlaugsdóttir, íbúi í Grindavík, og þar sem undirtektir við hennar mál voru gríðarlega sterkar leyfi ég mér að vitna í hennar orð. Hún sagði, með leyfi forseta: „Við viljum vera sjálfstæð, við viljum fá sjálfsákvörðunarréttinn okkar aftur og fá öryggi til langs tíma.“ Ég held að í þessum orðum kjarnist vilji Grindvíkinga og að í þeim felist það leiðarljós sem stjórnvöldum ber að fara eftir. Bryndís sagði líka að Grindvíkingar vildu heimili en ekki hús með fjórum veggjum. Í þessum orðum hennar felst það að tímabundið húsnæði þar sem þú getur sofið er ekki heimili í nokkrum skilningi þess orðs. Það er þess vegna sem svo margir Grindvíkingar kalla eftir uppkaupum á húsnæði í Grindavík. Þau vilja geta búið sér heimili til frambúðar.

Ég skil þá afstöðu ríkisstjórnarinnar að það sé stór ákvörðun að ákveða að leggja niður heilt bæjarfélag með því að fara í uppkaup. En þá spyr ég: Er það í raun á borði ríkisstjórnarinnar að ákveða hvort það verði byggð í Grindavík áfram eða ekki? Er sú ákvörðun ekki Grindvíkinga sjálfra, ekki sem hóps heldur hvers og eins þeirra að taka ákvörðun um áframhaldandi búsetu sína í þessum fallega bæ? Ríkisstjórnin og við sem sitjum á Alþingi verðum að hafa vilja Grindvíkinga í huga og þá má ekki hugsa um þá bara sem einsleitan hóp heldur hóp einstaklinga og þar verður hver og einn að fá að ráða sínum málum eins og hverjum og einum hentar best. Ef ríkisstjórnin er á annað borð tilbúin í uppkaup á eignum Grindvíkinga þá á hún ekki að taka þá gerræðislegu ákvörðun að það geri hún annaðhvort fyrir alla eða engan. Það eru margir sem ekki eru tilbúnir til að taka endanlega ákvörðun um það strax hvort þeir vilji snúa til baka en aðrir eru þegar búnir að taka sína ákvörðun. Það er ekki ríkisstjórnarinnar að ákveða hvort Grindavík byggist aftur heldur Grindvíkinga sjálfra og þá ákvörðun verður hver og einn þeirra að taka fyrir sig. Það er sú ríkisstjórnarinnar að grípa þá eins og þörf er á.

Það er von okkar allra að þessi fallegi og blómlegi bær byggist upp á ný en það virðist einnig ljóst að á því kunni að vera nokkur bið ef af verður. Grindvíkingar hafa gengið í gegnum nóg og það er hlutverk okkar sem hér sitjum að styðja þá í þeirri baráttu eftir bestu getu þó að vissulega muni þurfa eitthvert regluverk í kringum það. En óskýr fyrirheit um að taka vandann í fangið þegar við höfum útfært regluverkið eru ekki þau skilaboð sem Grindvíkingar þurfa núna. Eins og forsætisráðherra sagði þá er þverpólitísk samstaða með Grindvíkingum. Nýtum hana og veitum þeim skýrari svör sem allra fyrst.