154. löggjafarþing — 56. fundur,  22. jan. 2024.

endurnot opinberra upplýsinga.

35. mál
[18:31]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég tek bara undir það, ég myndi halda að öll birting opinberra gagna, auðveldara aðgengi sem og sambærilegra, ýti undir tækifæri til að bera þau saman, sjá hvaða áhrif þau hafa og hverjir fá þeirra notið, sama um hvað er rætt. Ef kyngreindar upplýsingar liggja fyrir hjá stofnunum eða opinberum aðilum þá ætti að birta þær eins mikið og unnt er. Þannig að ég held að þetta frumvarp muni einungis hjálpa til við að setja skýrar reglur og ýta undir það. Þetta frumvarp hefur líka haft það í för með sér að samtalið hefur orðið virkara um hvað þarf að gera í kjölfarið, hvernig við þurfum að bregðast við með aðgerðum og stefnu og skýrari línu meðal stofnana og opinberra aðila um birtingu gagna og að við hugsum það kannski ekki einungis út frá því hvað er birt nú þegar heldur líka hvaða tækifæri liggja í því að birta mun meira á aðgengilegu formi fyrir fólk með stórar hugmyndir.