154. löggjafarþing — 57. fundur,  23. jan. 2024.

Orkumál.

[14:26]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég er mjög hugsi yfir þessari umræðu um orkuskort. Við Íslendingar erum ótrúlega auðug þegar kemur að endurnýjanlegri orku. Hér hitum við flest hús með jarðvarma og framleiðum meiri raforku miðað við höfðatölu en nokkurt annað ríki. Þessi endurnýjanlega orka er hins vegar háð þeim skilyrðum að hún byggist á náttúruöflunum þannig að framleiðslugetan sveiflast með náttúrunni. Það er ekki nýtt vandamál, ef vandamál skyldi kalla, heldur er gert ráð fyrir því í samningum orkufyrirtækja við stórnotendur raforku. Ef vatnsaflið dregst saman í kjölfar minni úrkomu þá bitnar það á þeim sem hafa gert samninga um skerðanlega orku.

Orkuskortur er ekki vandamálið, forseti. Vandamálið sem við stöndum frammi fyrir er aukin markaðshyggja í orkumálum. Með yfirvofandi orkuskiptum vilja sífellt fleiri stórnotendur komast á markaðinn og einkafyrirtæki sem framleiða orku vilja bæta við sig viðskiptum en til þess þurfa þau að fá leyfi til að framleiða meiri orku. Í millitíðinni eru þessi fyrirtæki að ofselja raforku og þegar vatnsárið er lélegt eins og núna þá lenda þessi fyrirtæki í vandræðum. Það að eftirspurn eftir raforku sé umfram framboð er ekki tilefni til þess að blása í alla lúðra og öskra um orkuskort. Það væri óskandi að þessi fyrirtæki og helsti talsmaður þeirra, hæstv. orkumálaráðherra, myndu vanda sig meira í umræðunni um orkumál en þess í stað er ýtt undir heimatilbúið neyðarástand í orkumálum, allt í þágu gróðasjónarmiða. Raunverulega neyðarástandið sem við stöndum frammi fyrir, forseti, er vöntun á ráðherra umhverfismála sem stendur vörð um umhverfið og almannahagsmuni og ríkisstjórn sem er annt um heiðarlega umræðu um okkar mikilvægustu innviði og auðlindir.