154. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2024.

álagningarstofn fasteignaskatts.

278. mál
[16:14]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir samantektina. Það er eins og ég sagði og ég ætla kannski að ítreka, að þetta er mikilvægur skattstofn fyrir sveitarfélögin. Þetta eru um 15% af þeirra tekjum. Útsvar er auðvitað langstærst. Mikilvægi jöfnunarsjóðs kemur þarna fram en þessar tekjur eru mikilvægar. Ef þær væru fullnýttar væri innheimtan um 41 milljarði hærri, þar af væru 39 milljarðar lagðir á íbúðarhúsnæði, en með því að sveitarfélögin komi til móts við þessar hækkanir þá gerist það ekki.

Það kemur náttúrlega í ljós að útsvarstekjur hafa vaxið meira, sem þýðir að laun og afkoma fólks hefur vaxið meira heldur en þessi hækkun, þó að hún sé umtalsverð á þremur árum. En ég vil bara segja að ekkert ósvipað og við erum með í mati í fiskveiðistjórnarkerfinu, þegar til að mynda þorskkvótinn eykst að mati um 20.000 tonn er þar inni reikniregla sem gerir það að verkum að næsta ár eykst hann bara 10.000 og það sama gildir þegar hann minnkar — mér finnst þessi hugmyndafræði ágæt vegna þess að þetta getur verið óvænt. Ef í einu sveitarfélagi, eins og hv. þingmaður nefnir, alveg óháð því hverjir stjórna því, gæti það gerst að fasteignaverð hækkaði um 40% eða 30%, eins og við höfum séð dæmi um á síðustu árum, þá væri ósanngjarnt að fá það bara í bakið hjá fólki sem ætlaði að búa þarna áfram og er ekkert að selja húsin sín og er ekkert að reyna að breyta þeim í eitthvert verð. Það má því alveg hugsa sér einhverjar slíkar pælingar, finnst mér. Ég held að við eigum að halda áfram að velta vöngum yfir þessari þróun en ég bendi líka á að það eru væntanlega í vændum einhverjar breytingar er varðar stofninn, þ.e. að hann breikki er varðar orkumannvirki sem í mörgum tilvikum á undanförnum árum hafa verið undanskilin.