154. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2024.

snjallvæðing umferðarljósa í Reykjavík.

463. mál
[16:22]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur fyrir að hefja máls á þessu hér í þingsal. Þó svo að fólki kunni að finnast að þetta sé hlutur sem eigi frekar heima á vettvangi borgarstjórnar þá er það nú svo að við erum þing þessa lands og mjög stór hluti okkar búum einmitt hér á þessum stað. En mig langar til að taka undir með hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur varðandi mikilvægi almenningssamgangna og þá sérstaklega mikilvægi fyrirætlana um borgarlínu. En mig langar líka til að taka undir það að mér finnst á köflum umferðarljósin í Reykjavík ekki vera neitt sérstaklega snjöll. Ég þarf t.d. að keyra Miklubrautina tvisvar, þrisvar á dag með barn í skóla og þar eru gönguljós sem eru klárlega mjög heimsk. Mig langar líka til að benda á það að snjallstýring umferðarljósa er mikilvæg til að greiða fyrir almenningssamgöngum. Fyrir nokkrum árum heyrði ég í fréttunum að það stæði til að setja snjallstýringu á umferðarljós sem væri þess eðlis að þau breyttu rauðu í grænt þegar strætó nálgaðist. Ég hef ekki enn þá séð það gerast(Forseti hringir.) en ég vona sannarlega að þetta standi allt til bóta enda heyrist mér á hæstv. innviðaráðherra að málið sé í vinnslu.