154. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2024.

framfylgd reglna um rafhlaupahjól.

321. mál
[16:32]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa mikilvægu fyrirspurn. Þetta er mikilvægt mál. Frá árinu 2019 hefur verið sektað vegna brota á banni við ölvunarakstri eða akstri undir áhrifum vímuefna á vélknúnu hlaupahjóli alls 108 sinnum. Oftast var sektað vegna þeirra brota árið 2023 en það var gert 57 sinnum á þeim tíma sem við báðum um upplýsingar. Í eitt skipti hefur reynt á sektarákvæði umferðarlaga vegna vélknúins hlaupahjóls sem var hannað til aksturs á hraða umfram það sem heimildir standa til. Það hefur ekki verið sektað fyrir brot á ákvæði 5. mgr. 42. gr. umferðarlaga um lagningu vélknúins hlaupahjóls. Hvort hægt sé að innheimta sekt vegna umferðarlagabrots á grundvelli gagna úr staðsetningarbúnaði ræðst af mati lögreglustjóra og annarra handhafa ákæruvalds. En sekt verður ekki lögð á nema sannað þykir að brotið hafi verið gegn lögum og metur ákæruvaldið hvort krefjast á greiðslu sektar. Það er aðeins gert þegar það liggur fyrir að maður hafi brotið gegn lögum og ákæra verður aðeins gefin út ef málið er talið líklegt til sakfellis. Verði ágreiningur um sekt á milli ákæruvalds og sakbornings er það þá dómstóla að skera úr.

Varðandi skilgreind svæði þá eru merkt stæði fyrir rafhlaupahjól innan borgarmarkanna til að mynda en það er ekki skylt samkvæmt lögum að leggja innan þeirra marka. Fyrirtæki sem leigja hjólin hafa reynt að skapa hvata til þess að þeim sé lagt á afmörkuðum svæðum, t.d. með því að fá sérstökum merktum stæðum úthlutað í borgarlandi og með því að útbúa sjálf merkt stæði við stofnanir og fyrirtæki. Sé rafhlaupahjóli lagt í slíkt stæði fær leigutaki afslátt af leigunni. Svo eru bannsvæði víðast skilgreind, en þar má t.d. nefna kirkjugarða og undirgöng.

Varðandi ábyrgð fyrirtækjanna þá ber ökumaður ábyrgð á því að leggja í samræmi við lög, en skv. 96. gr. umferðarlaga skal eiganda ökutækis eða stjórnanda í starfi einnig refsað fyrir brot ef það er framið eftir fyrirmælum með vitund og vilja hans. Vegna ákveðinna brota er heimilt að leggja á gjald skv. 109. gr. umferðarlaga. Það er t.d. í ákveðnum tilvikum þegar lagt er ólöglega. Gjaldið hvílir þá á þeim sem bera ábyrgð á stöðvun ökutækisins eða lagningu en eigandi eða umráðamaður ber einnig ábyrgð á greiðslu ef gjaldið greiðist ekki innan tilskilins frests nema það sé sannað að ökumaðurinn hafi notað ökutækið í algjöru heimildarleysi.

Varðandi það hvort ráðherra hafi íhugað að skerpa á reglum eða viðurlögum er hægt að segja að það er óheimilt að stöðva eða leggja ökutæki þannig að það geti valdið hættu eða óþarfaóþægindum fyrir aðra umferð. Svo er sérstaklega tekið fram að ganga skuli þannig frá reiðhjóli sem lagt er að ekki stafi hætta eða truflun, en rafhlaupahjól teljast til reiðhjóla samkvæmt núgildandi lögum. Gert var ráð fyrir því í frumvarpi til umferðarlaga sem lagt var fram á 153. þingi að sama myndi áfram eiga við.

Veghaldara er heimilt að kveða á um varanleg sérákvæði um notkun vegar til umferðar að höfðu samráði við sveitarstjórn þegar það á við og að fengnu samþykki lögreglu. Það er m.a. vegna stöðvunar og lagningar ökutækis. Því til viðbótar hefur ráðuneytið bent á að sveitarfélög geta kveðið á um frágang með ákveðnum hætti í þjónustusamningi við fyrirtækin. Landslagið tengt smáfarartækjum hefur breyst hratt hér á landi, mjög hratt undanfarin ár og er mikilvægt að það sé gott samtal milli ríkis og sveitarfélaga til að skapa umgjörð sem tryggir sem best öryggi notenda smáfarartækja og annarra vegfarenda. Það má segja að þetta samtal þurfi að vera við notendurna líka og það þurfi miklu meiri fræðslu og þekkingu á því hvaða tæki menn hafa í höndunum og hvaða hættu þau getað skapað, ekki síst fyrir aðra sem þurfa að eiga möguleika á frjálsri för.