154. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2024.

orð ráðherra um aðkomu ríkisins að kjaraviðræðum.

[10:33]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Í Silfrinu á mánudaginn sagði hæstv. utanríkisráðherra Bjarni Benediktsson og formaður Sjálfstæðisflokksins eitthvað á þá leið að verkalýðshreyfingin myndi þurfa að slá af kröfum sínum til hins opinbera vegna nauðsynlegra aðgerða ríkisins vegna Grindavíkur. Það má með sanni segja að þessi ummæli hafi hleypt illu blóði í kjaraviðræðurnar en þetta eru kjaraviðræður sem hafa staðið yfir milli svokallaðrar breiðfylkingar og Samtaka atvinnulífsins með því yfirlýsta markmiði að fara fram á hóflegar launahækkanir og með það að markmiði að ná fram lífskjörum á annan hátt með því að lækka vaxtastig og takast á við verðbólgu sem þessi ríkisstjórn þreytist ekki á að tala um að sé sameiginlegt verkefni okkar allra. Hæstv. fjármálaráðherra tók undir þessi orð formannsins í gær og talaði um að ekki væri hægt að nota sömu krónuna tvisvar.

Nú er mér spurn í ljósi þess að nú er búið að vísa þessari deilu til ríkissáttasemjara vegna þess að Samtök atvinnulífsins mættu með lægra tilboð heldur en þau höfðu áður gert til viðsemjenda sinna: Hvert var markmiðið með þessum yfirlýsingum hæstv. fjármálaráðherra og formannsins? Var það að hleypa illu blóði í kjaraviðræður? Var það að stilla verkalýðshreyfingunni og launafólki upp á móti Grindvíkingum og draga úr samkennd samfélagsins með réttmætum kröfum þeirra um bætt lífsskilyrði? Eða var það til að breiða yfir það að það stóð aldrei til af hálfu Sjálfstæðisflokksins að koma til móts við sjálfsagðar og eðlilegar kröfur um að millifærslukerfin okkar séu uppfærð í takt við tímann, í takt við verðlag, vegna þess að það er andstætt hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins?