154. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2024.

niðurfelling persónuafsláttar lífeyris- og eftirlaunaþega sem búsettir eru erlendis.

[10:55]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég verð að benda á það að hér kom tillaga inn til þingsins til þinglegrar meðferðar, einmitt fyrir þingið að kalla til þá sem þarf til að vinna málið áfram. Hér eru notuð stór orð um að það sé verið að sparka í fólk í viðkvæmri stöðu. Mig langar að spyrja en ég geri það ekki undir þessum lið, en ég bið fólk a.m.k. að hugsa það og hugsa svar við því: Hvað finnst okkur um að það séu dæmi um að verið sé að misnota kerfið eins og það er í dag? Hvað finnst okkur um að það sé töluvert um röng framtalsskil einmitt vegna þessa kerfis eins og það er núna? Það var lögð gríðarleg áhersla á að fresta því máli þannig að það næði ekki fram að ganga. (Gripið fram í.) Hvað finnst okkur um að það sé einhver misnotkun á kerfi þar sem sumir fá tvöfalda ívilnun sem hvergi er gert ráð fyrir að eigi að vera staðan á meðan aðrir fá það sem gert er ráð fyrir? (Forseti hringir.) Erum við sammála um að vilja koma í veg fyrir það? Er þá ekki eðlilegt að tillagan komi aftur inn og fái þinglega meðferð til að komast að því ef einhverju þarf að breyta? (Forseti hringir.) Eða er kannski auðveldara að taka slaginn og segja: Við viljum ekki breyta því þrátt fyrir að við vitum að það sé ekki verið að fara rétt með? Fyrir hvern er það ósanngjarnt? Fyrir þá sem þurfa á kerfinu að halda.