154. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2024.

Útvistun heilbrigðisþjónustu.

[11:20]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir að hefja þessa umræðu. Ég ætla að reyna að halda mig við stóru áherslurnar í ræðu hv. þingmanns og fagna um leið tækifæri á að, skulum við segja, skýra vel hvað við erum raunverulega að tala um. Fyrst vil ég segja að allar ákvarðanir sem eru teknar um forgangsröðun fjármuna, um aðgerðir, um útvistun eða hvað annað eru teknar á grundvelli heilbrigðisstefnu til 2030, sem er uppfærð árlega. Það þekkir þingið og hv. þingheimur. Næst vil ég segja að það er mjög mikilvæg forsenda þegar við ræðum þetta, og ég geri þær væntingar til þessarar umræðu og kannski þess sem kemur út úr þessari umræðu, að það sé einhver sameiginlegur skilningur á hugtakanotkun í umræðu um skipulag þjónustu í blönduðu kerfi. Ég minni á að það er kerfi sem hefur þróast í áraraðir og áratugi, opinberlega fjármögnuð þjónusta eins og hv. þingmaður kom inn á, og það er sátt um það í þjóðfélaginu og það er unnið eftir því. Svo skulum við ræða allt hitt, um aðgengið og stefnuna og aðgengi óháð efnahag.

Fyrst að spurningu um heildstæða stefnumótun um útvistun aðgerða og einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Ég er að hluta til búinn að svara því en útvistun styður við þau markmið að rétt þjónusta sé veitt á réttum stað. Og þá að því sem þetta kjarnast allt í eða snýst um, það er þjónustan og sjúklingurinn sjálfur, fólkið í fyrirrúmi. Við þekkjum þetta. Við erum að færa þjónustuna til, til þess að dreifa álagi innan kerfisins, til þess að nýta allt kerfið, til aðila sem hafa þekkinguna og svigrúmið til að sinna þjónustunni hverju sinni og af viðunandi öryggi og gæðum. Útvistun getur verið innan opinbera kerfisins. Henni getur verið beint á milli stofnana án nokkurrar aðkomu annarra eða yfirvalda ef því er að skipta. Hún getur líka verið frá opinberum aðila til einkaaðila út frá rekstrarformi, ef við erum að skilgreina það. En fyrst og síðast erum við alltaf að vinna eftir þessari stefnu: Við erum að auka aðgengi. Getur falist í því aukin skilvirkni? Já, ég kem að því síðar.

Hver eru áform ráðherra varðandi einkavæðingu hjúkrunarheimila? Það eru bara akkúrat engin áform um einkavæðingu hjúkrunarheimila. Mikill meiri hluti hjúkrunarrýma er rekinn af sjálfseignarstofnunum, eins og hv. þingmaður kom inn á, og alls ekki verið að drepa því á dreif, það er bara staðreynd. Hafa orðið tafir á uppbyggingu hjúkrunarheimila? Já, og nýjustu viðbrögðin við því eru að auka skilvirknina og að mæta þessari þróun sem raunverulega hefur verið. Hvað hefur verið að gerast? Við vitum það að sveitarfélögin hafa verið að falla frá þessari þjónustu þannig að í dag erum við með þjónustukaup ríkisins í gegnum Sjúkratryggingar af sjómannadagsráði, af Grund, af Eir, af Heilsuvernd, af Sóltúni og svo eru heilbrigðisstofnanirnar okkar fyrir austan, fyrir norðan og fyrir vestan meira og minna komnar með þessa þjónustu 100%. Það sem ég og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra erum raunverulega að gera er að skerpa á hlutverki og ábyrgð með breyttu fyrirkomulagi í þeim tilgangi að hraða uppbyggingunni.

Í þriðja lagi er spurt hvort aukin skilvirkni fáist með útvistun aðgerða. Ég hef kosið að tala um að við settum 700 milljónir á síðasta ári í það að leggja áherslu á lýðheilsutengdar aðgerðir eins og liðskipti. Hvað hefur gerst? Við erum búin að auka aðgerðir um 60%. Það þýðir aukið aðgengi, fleiri komast að og það er jafnræði. Aðgerðum í útlöndum hefur fækkað. Það er sparnaður. Það heitir skilvirkni og tölurnar liggja fyrir. (Forseti hringir.) — Það eru síðan tvær spurningar sem ég kem að í seinni ræðu.