154. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2024.

Útvistun heilbrigðisþjónustu.

[11:32]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Fyrir nokkrum vikum fór ég í frí til Frakklands. Í nokkurn tíma var ég þá búin að reyna að fá tíma hjá heimilislækni hér heima án árangurs. Á heilsugæslunni minni er ekki hægt að panta tíma hjá lækni og með því að segja að það sé ekki hægt þá á ég ekki við að það sé erfitt eða nánast ekki hægt. Það er ekki í boði, eins og þau segja í Hjallastefnunni. Mér var bent á bráðamóttökuna ef þetta væri neyðartilfelli, annars Læknavaktina. Þetta var hins vegar ekkert bráðatilfelli og á heimasíðu Læknavaktarinnar las ég að ég ætti ekki að leita þangað vegna einhvers sem mætti bíða næsta dags, svona eins og það væri hægt að fá tíma á heilsugæslunni næsta dag. En svo skrapp ég til Frakklands og hafandi búið þar vissi ég að ég gæti farið á internetið og einfaldlega bókað tíma hjá lækni. Í Frakklandi búa tæplega 70 milljónir en ég komst til læknis samdægurs þegar ég þurfti að komast til læknis. Læknirinn sem ég hitti var innflytjandi.

Forseti. Þessi ríkisstjórn talar gjarnan eins og að á samfélögum sé einhver hámarksstærð, að innviðir okkar þoli ekki fleira fólk. Það er auðvitað ekki rétt heldur þurfa innviðir okkar þvert á móti fleira fólk til þess að geta þjónað sínu hlutverki. Samt bólar ekkert á aðgerðum hjá ríkisstjórninni til að gera Ísland meira aðlaðandi fyrir fólk að koma hingað og taka þátt í samfélaginu með okkur. Þvert á móti er unnið hörðum höndum að því að draga úr því sem kallað eru seguláhrif, aðdráttarafl, með skerðingu tækifæra og jafnvel skerðingu mannréttinda. Ég fer þó fyrst og fremst fram á það af hálfu ríkisstjórnarinnar, og vísa þar bæði í tilefni þessarar umræðu og þeirra erinda sem hér hafa verið flutt af hálfu annarra hv. þingmanna, að skýla sér ekki á bak við ástand sem hún hefur sjálf skapað til þess að einkavæða heilbrigðiskerfið hugsunarlaust á Íslandi í skjóli nætur.