154. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2024.

Útvistun heilbrigðisþjónustu.

[11:34]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu sem er mikilvæg. Við þyrftum að gera meira af því að ræða heilbrigðismál sem skipta okkur svo miklu máli. Við erum ekki að ræða hér framlögin í heildina til heilbrigðismála heldur formið á þjónustunni sem hér er til umræðu. Ég vil bara að lýsa því yfir strax að ég er í liði með hæstv. heilbrigðisráðherra þegar kemur að þeirri viðleitni hans að fækka fólki á biðlistum. Ég er á þeirri skoðun að þeir samningar sem ráðherra gerði við þá þjónustuaðila sem hér hafa verið að veita þjónustu hvað varðar liðskiptaaðgerðir hafi hreinlega unnið gegn einkavæðingu af því að við þá samningsgerð kom ráðherra í veg fyrir að ríkara fólk gæti greitt sig fram fyrir röðina. Nú fóru bara allir á sama biðlistann og borguðu það sama. Það skiptir máli.

Ég bý í samfélagi þar sem 30.000 manns búa. Þar var ein heilsugæsla. Það gerðist ekki neitt í tíð fyrri ráðherra. En núna, eftir að þessi ráðherra kom, þá náðum við í gegn einkarekinni heilsugæslu sem er núna farin að þjónusta 6.000 íbúa á svæðinu. Gamla heilsugæslan réð ekkert við að þjónusta 30.000 manns, enda voru 4.000–5.000 manns farin að keyra Reykjanesbrautina til að fá þjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Núna er þessi heilsugæsla farin að þjónusta 6.000 manns og það mun halda áfram að þróast þannig, eftir því sem fólk áttar sig á því að það er verið að bæta þjónustuna, að einkareksturinn við hliðina á opinbera rekstrinum mun koma okkur til góða.