154. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2024.

Útvistun heilbrigðisþjónustu.

[11:37]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég vil fyrst þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu og og ráðherra fyrir að koma til þessarar umræðu sem er að verða einhver sú áhugaverðasta um allnokkra hríð. Ég man varla eftir að áður hafi verið talað með jafn skýrum hætti fyrir auknum sósíalisma í pontu eins og í inngangsræðu upphafsmanns þessarar umræðu, hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur, og skein í gegn einlæg fyrirlitning á einkarekstri hvað heilbrigðislausnir varðar. Við erum hér með blandað kerfi sem hefur þróast um áratugi. Það var stórkostlegt áfall, sú meðferð sem heilbrigðiskerfið og einkarekstrarhluti þess varð fyrir á síðasta kjörtímabili undir forystu ráðherra Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra á bara vorkunn skilda að þurfa að vinda ofan af ýmsum þeim slæmu ákvörðunum sem þá voru teknar. En ég held að það sé til bóta einmitt að við tölum um pólitík hérna í þessari pontu og hún er venju fremur skýr í þessu máli og vilji Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs til að innleiða hér meiri sósíalisma í heilbrigðisrekstri. (BjG: Jess.) Já, hrópar fyrrverandi formaður fjárlaganefndar hér úr hliðarherbergi. Við erum með blandað kerfi. Það hlýtur að skipta mestu máli að við fáum sem mesta þjónustu fyrir sem minnstu fjármuni. Þetta er meira og minna allt saman borgað úr opinberum sjóðum. Hvaða máli skiptir það hvert rekstrarformið er ef þjónustan er góð? Ég bara fagna því mjög að þessi skýra sýn komi fram frá Vinstrihreyfingunni – grænu framboði því hún auðvitað undirstrikar þau innri mein sem ríkisstjórnin á við að glíma og telji menn ríkisstjórnina hafa verið að komast í skjól í þessari viku þá bendir upptakturinn að þessari umræðu til alls annars.