154. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2024.

Útvistun heilbrigðisþjónustu.

[11:39]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Almennt hugnast mér ekki sú hugmyndafræði sem liggur að baki einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Heilsa lands og lýðs má aldrei verða eins og hver önnur vara á markaði, enda er vilji landsmanna skýr; að hið opinbera sjái um rekstur heilbrigðisþjónustu á landinu eins og kom fram í máli málshefjanda. Ég gef lítið fyrir þau rök að einkavæðing verði til þess að auka skilvirkni og hagræði enda hefur reynslan víða annars staðar sýnt fram á hið gagnstæða og ótal rannsóknir á ólíku fyrirkomulagi heilbrigðisþjónustu sýna að opinbert heilbrigðiskerfi stuðlar að bættri lýðheilsu og jafnara aðgengi. Í mínum huga er heilbrigðiskerfi sem er rekið á félagslegum grunni eina skynsamlega leiðin til að tryggja jafnt aðgengi allra að hágæðaþjónustu óháð efnahag og félagslegri stöðu. Við sáum t.d. mikilvægi þess að stjórnvöld gátu forgangsraðað og skipulagt heilbrigðisþjónustuna í heimsfaraldrinum sem var mikilvægt. Einkavæðing, sama hversu saklaus hún kann að vera á yfirborðinu og sama hversu göfug markmiðin kunna að vera, grefur undan stjórn opinberra aðila á heilbrigðiskerfinu. Hætt er við því að yfirsýn stjórnvalda yfir þá þjónustu sem veitt er tapist og þjónustan verði brotakennd með tilheyrandi óhagræði fyrir rekstur kerfisins í heild, að ótöldum áhrifum þess á þjónustu við almenning. Í sumum greinum heilbrigðisþjónustu er skynsamlegt að hafa blandað kerfi eins og hér hefur verið en það þarf að vera á forsendum hins opinbera að semja um þá þjónustu. Við erum jú að tala um almannafé. Ég skil mætavel þau sjónarmið að stytta bið almennings eftir aðgerðum, að nýta einkarekin fyrirtæki til að taka mesta kúfinn af löngum biðlistum. Þrátt fyrir það tel ég rétt að uppbyggingin eigi fyrst og fremst að eiga sér stað innan opinberra stofnana enda mun einkavæðingin óhjákvæmilega leiða af sér arðsemiskröfur, arðgreiðslur fyrir þjónustu sem fjármögnuð er með skattpeningum. Þetta sjáum við t.d. í öldrunarþjónustunni og víðar þar sem dæmi eru um gríðarháar arðgreiðslur í þeim geira. Það er ekki mín sýn að markaðsvæða eigi heilbrigðisþjónustuna og ég tel að við þurfum að stíga afar varlega til jarðar, ekki síst þegar kemur að grunnþjónustunni.