154. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2024.

staðgreiðsla opinberra gjalda o.fl.

616. mál
[12:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég mæli hér með fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum um tryggingagjald og lögum um tekjuskatt, vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

Í frumvarpinu er annars vegar kveðið á um framlengingu heimildar launagreiðenda í Grindavíkurbæ til að fresta staðgreiðslu tekjuskatts, útsvars og tryggingagjalds og má gera ráð fyrir að það hafi í för með sér mildun neikvæðra áhrifa jarðhræringa og eldsumbrota á lausafjárstöðu rekstraraðila. Hins vegar er í frumvarpinu kveðið á um framlengingu ákvæðis um að sérstök eftirgjöf vaxta og verðbóta, af skuldum manna utan atvinnurekstrar, af lánum sem tekin hafa verið vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, teljist ekki til skattskyldra tekna.

Í lok árs 2023 var lögfest heimild með bráðabirgðaákvæðum í lögum um staðgreiðslu opinberra gjald og lögum um tryggingagjald, til að launagreiðendur sem eiga í tímabundnum rekstrarörðugleikum vegna tekjufalls vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ geti óskað eftir greiðslufresti á allt að þremur greiðslum í ríkissjóð á afdregnum skatti í staðgreiðslu tekjuskatts, útsvars og tryggingagjalds sem falla munu í gjalddaga 1. desember 2023 til og með 1. febrúar 2024. Greiðslur sem frestað er falla í gjalddaga og eindaga 15. apríl 2024.

Í frumvarpinu er nú lögð til framlenging á áðurnefndum bráðabirgðaákvæðum og lagt til að fyrrnefndir launagreiðendur geti óskað eftir greiðslufresti á afdreginni staðgreiðslu tekjuskatts, útsvars og tryggingagjalds sem falla mun í gjalddaga 1. mars 2024 til og með 1. júlí 2024. Verður nýr gjalddagi og eindagi þeirra 15. janúar 2025. Jafnframt er lagt til að launagreiðendum sem frestað hafa greiðslum til eindaga 15. janúar 2025 verði heimilað að sækja um að fresta þeim greiðslum þannig að þær skiptist á fjóra gjalddaga og verða gjalddagar og eindagar þeirra 15. september, 15. október, 17. nóvember og 15. desember 2025.

Verði breytingartillögurnar að lögum verður launagreiðendum gert auðveldara að standa í skilum og má gera ráð fyrir að það styrki áframhaldandi rekstrargrundvöll þeirra. Hér er rétt að nefna að ríkisstjórnin hefur ákveðið að ráðast í frekari rekstrarstuðning vegna stöðunnar í Grindavík og er útfærsla þess í vinnslu og krefst gaumgæfilegs undirbúnings og góðs samráðs við aðila á svæðinu.

Heimild til að fresta staðgreiðslu er ætlað að milda neikvæð áhrif tekjusamdráttar af völdum náttúruhamfara á lausafjárstöðu rekstraraðila í Grindavíkurbæ. Heimildin frestar gjalddögum og gerir rekstraraðilum því kleift að halda viðkomandi fjármunum tímabundið. Ekki er talið að áhrif á ríkissjóð af úrræðinu verði veruleg þar sem það beinist að mjög afmörkuðum hópi launagreiðenda og að um er að ræða frestun en ekki endanlega niðurfellingu.

Nýting þeirrar framlengingar sem hér er heimiluð veltur þó á ýmsum þáttum sem mikil óvissa er um og ekki síst framhaldi þeirra atburða sem enn eru í gangi við Grindavík. Ríkissjóður mun fjármagna þann hluta staðgreiðslu launagreiðenda sem tilheyrir sveitarfélögum þannig að útsvarsgreiðslur berist þeim á réttum tíma. Það hefur í för með sér fjármagnskostnað fyrir ríkissjóð. Aukinn viðnámsþróttur þeirra fyrirtækja sem nýta sér úrræðið er þó einnig til þess fallinn að auka umsvif og skattgreiðslur síðar þegar óvissunni léttir. Heildaráhrif á ríkissjóð eru því óviss en í öllu falli hlutfallslega lítil. Úrræðið mun hafa óveruleg áhrif á stjórnsýsluna þar sem það er þekkt fyrir en engu að síður kallar það á áframhaldandi umsjón og utanumhald innan Skattsins og Fjársýslunnar. Auk þess gæti orðið einhver fjölgun á kærum til yfirskattanefndar.

Þá er í frumvarpinu að finna ákvæði um að sérstök eftirgjöf vaxta og verðbóta leiði ekki til skattskyldu hjá Grindvíkingum. Þrír stærstu viðskiptabankar landsins í samvinnu við Samtök fjármálafyrirtækja gerðu samkomulag um að fella niður vexti og verðbætur af skuldum vegna íbúðalána Grindvíkinga í nóvember og desember 2023 og janúar 2024. Samkomulagið gerir ráð fyrir því að niðurfellingin takmarkist við allt að 50 millj. kr. lánsfjárhæð að hámarki. Útfærslan á niðurfellingunni er á forræði bankanna og takmarkar hún ekki að þeir geti veitt viðskiptavinum sínum frekari fyrirgreiðslu.

Í lok árs 2023 var lögfest bráðabirgðaákvæði í lögum um tekjuskatt sem kveður á um að sérstök eftirgjöf vaxta og verðbóta, af skuldum manna utan atvinnurekstrar, vegna nóvember og desember 2023 og janúar 2024, af lánum sem tekin hafa verið vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, þar með talin kaup á búseturétti og kaup á eignarhlut í almennri kaupleiguíbúð, teljist ekki til skattskyldra tekna við álagningu opinberra gjalda á árunum 2024 og 2025, að því gefnu að um sé að ræða vexti og verðbætur vegna áhvílandi lána á íbúðarhúsnæði.

Í ljósi þess að þrír stærstu viðskiptabankar landsins hafa boðið Grindvíkingum að frysta íbúðalán sín hjá bönkunum í þrjá mánuði til viðbótar og jafnframt fella niður vexti og verðbætur lánanna til aprílloka er í frumvarpinu lögð til framlenging á fyrrnefndu bráðabirgðaákvæði um þrjá mánuði, þ.e. til loka aprílmánaðar á þessu ári.

Gert er ráð fyrir því að framlenging bráðabirgðaákvæðis í lögum um tekjuskatt, um skattfrelsi sérstakrar eftirgjafar vaxta og verðbóta, af skuldum manna utan atvinnurekstrar, af lánum sem tekin hafa verið vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, hafi óveruleg áhrif á afkomu ríkissjóðs. Engar upplýsingar liggja fyrir um hugsanlegar fjárhæðir í því samhengi.

Frú forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umræðu að lokinni þessari umræðu.