154. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2024.

sértækur húsnæðisstuðningur vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

618. mál
[12:45]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Þessar vangaveltur eru algerlega réttmætar. Við erum búin að vera í þröngri stöðu á húsnæðismarkaði með of lítið framboð núna í nokkur ár og gríðarlega fjölgun fólks á Íslandi, yfir 3% síðastliðin tvö ár, ef ég man rétt, sem hefur kallað á þrýsting á húsnæðismarkaði ofan í allt annað, verðbólgu og háa vexti. Síðan þegar það gerist að 1% þjóðarinnar verða húsnæðislaus á einu bretti þá framkallar það auðvitað enn frekari þrýsting á þessum markaði. Það hefur gengið vel í gegnum þessi úrræði leigufélagsins Bríetar sem verður þá komið með um 200 íbúðir eftir þessa lotu sem er í gangi núna þar sem það er að kaupa íbúðir og úthluta til leigu sem og Bjarg sem er með 60, annars vegar að skaffa húsnæði á viðráðanlegu verði með því að fjármagna það með þeim hætti sem við erum að gera. Leigutorgið er auðvitað einn valkostur sem líka hefur verið bent á, hann er sannarlega á markaði og við vitum verðin þar, þetta eru margir nýir samningar og þeir hafa örugglega áhrif á vísitöluna að einhverju leyti um þessar mundir þannig að það er mikilvægt að grípa til fleiri aðgerða. Þess vegna höfum við verið að skoða til að mynda að takmarka eða þrengja að skammtímaleigumarkaðnum til að fá íbúðir sem eru til í dag og fá þær vonandi inn á markaðinn sem fyrst eða í það minnsta í framtíðinni. Við höfum líka verið alveg opinská með það að kannski þurfi að kaupa íbúðir eða hjálpa til við að framleiða íbúðir eins og t.d. með innflutningi á húseiningum á mun stærri skala heldur en rætt hefur verið um. Í upphafi voru þetta auðvitað skammtímaúrræði og það voru vonir um að þessar náttúruhamfarir gengju yfir en núna horfum við kannski framan í að þær muni taka lengri tíma og þörf fyrir húsnæði fyrir Grindvíkinga er meira aðkallandi og til lengri tíma.