154. löggjafarþing — 60. fundur,  30. jan. 2024.

styrking tilfærslukerfa og kjarasamningar.

[13:36]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Þessi ríkisstjórn hefur lagt ríka áherslu á að eiga mjög gott samtal við aðila vinnumarkaðarins og m.a. þess vegna settum við á laggirnar þjóðhagsráð sem hefur fundað reglulega. Þar höfum við verið að leggja grunninn að þeim áherslum sem við teljum mikilvægar bæði fyrir velferð og vinnumarkað. Mér finnst það mjög mikilvægt núna þegar aðilar að sitja við samningaborðið og þó að það hafi hlaupið snurða á þann þráð vonast ég sannarlega til að þær viðræður verði teknar upp aftur og góð tíðindin sem bárust í dag um að boðað hafi verið til fundar á morgun. Það skiptir máli í tengslum við kjarasamninga að við byggjum á þeirri stefnumótun sem við höfum þegar lagt í á þeim vettvangi. Þar hefur til að mynda verið lögð áhersla á framboð á húsnæði, þar hefur verið lögð áhersla á félagslegar lausnir á húsnæðismarkaði og þá er ég að vitna t.d. til stofnframlagakerfisins, þar hefur verið lögð áhersla á réttarbætur á leigumarkaði og lögð áhersla á aukinn stuðning við barnafjölskyldur, ekki bara í gegnum tilfærslukerfið heldur líka með því að ráðast að þeim vanda sem barnafjölskyldur standa frammi fyrir, t.d. þeirri stöðu sem því miður er víða uppi að fólk hreinlega kemur börnum sínum ekki inn á leikskóla. Það er á þessari stefnumótun sem við munum byggja okkar aðkomu að kjarasamningum.

Við höfum sagt það alveg skýrt, því að hv. þingmaður spyr hér um stefnubreytingu, og það hefur algjörlega legið fyrir að nái aðilar saman um langtímakjarasamninga sem styðja við forsendur þannig að hér lækki verðbólga og forsendur skapist til að lækka vexti þá eru stjórnvöld reiðubúin að koma að með tillögur þar sem við munum byggja á þeim tillögum sem m.a. hafa verið kynntar af breiðfylkingunni en líka þeim tillögum sem heildarsamtök á opinberum markaði hafa lagt fram og þeirri stefnumótun sem við höfum verið að vinna að á vettvangi þjóðhagsráðs undanfarin ár.

Ný verðbólgumæling er gleðitíðindi en ég vil líka nefna það að Hagstofan vinnur nú að endurskoðun á útreikningi húsnæðisliðar neysluvísitölunnar, (Forseti hringir.) sem oft hefur verið til umræðu í þessum sal, og það verður spennandi að fylgjast með framgangi þess verkefnis (Forseti hringir.) sem langt er komið hjá Hagstofunni.