154. löggjafarþing — 60. fundur,  30. jan. 2024.

Frysting greiðslna til UNRWA og aðstoð við aðrar stofnanir .

[14:09]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Af því að hv. þingmaður vísaði hér í fyrri fyrirspurn um Norðurlöndin og samstarf þeirra þá er alveg ljóst að þau eru að fara ólíkar leiðir. Noregur hefur tilkynnt að þau muni halda áfram stuðningi við UNRWA. Svíþjóð hefur í raun ekkert gefið upp hvað þau hyggist gera með sín kjarnaframlög en þróunarsamvinnustofnun Svíþjóðar hefur boðað einhvers konar aðgerðir. Finnland hefur tilkynnt að þau frysti framlög. Danir hafa sagt, samkvæmt mínum upplýsingum, að þau bíði aðeins þeirra ákvarðana sem verða teknar innan Evrópusambandsins. Í þessum málum höfum við leitast eftir norrænu samtali og norrænu samráði, sem okkur finnst mikilvægt, og ég vona svo sannarlega að við náum sameiginlegri línu í þessum efnum við okkar nánustu samstarfsríki.

Hv. þingmaður spyr hvort ég hafi verið upplýst um þessa ákvörðun. Svo var ekki. Þetta er ákvörðun sem heyrir undir utanríkisráðherra og ég vissi af henni þegar hún hafði verið tekin.