154. löggjafarþing — 60. fundur,  30. jan. 2024.

barnaverndarlög.

629. mál
[14:38]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka enn á ný hv. þingmanni fyrir. Ég vil segja það að sérstaklega á fyrstu mánuðum og árum í lífi barna eftir að þau flytjast til Íslands þarf aukna samhæfingu. Ég er hins vegar ekki þeirrar skoðunar að það sé skynsamlegt að byggja upp skóla þar sem við erum ekki með þessi börn með öðrum börnum, nema fyrst meðan þau eru að læra íslensku. En til að það megi verða þurfum við aukið samtal við sveitarfélög. Við erum í viðræðum við einstaka sveitarfélög núna um að stíga ákveðin skref í þessa veruna, auka samhæfingu, taka það miðlægt, en við verðum og megum ekki missa sjónar á því að verkefnið er auðvitað inngilding viðkomandi einstaklinga í íslenskt samfélag og þá getum við ekki til nema mjög skamms tíma verið með þau í sérstökum skóla, nema þá til þess að læra íslensku og aðstoða þau við að aðlagast íslensku samfélagi.

Síðan er annað sem skiptir máli í þessu. Við erum ekki sérstaklega vel búin þegar kemur að menntuðu fólki til að kenna íslensku. Það er ekki vinsælasta fagið í háskólanum að verða kennari sem kennir börnum með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn. Það þurfum við að stórefla og það er bara áskorun að gera það. Við þurfum að efla námsgagnaútgáfu fyrir börn með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn og það hefur verið gert nú þegar og við þurfum að gera enn betur í því.

Við þurfum líka aðgerðir þegar kemur að íþróttamálum, inngildingu í íþrótta- og tómstundastarfi. Þar erum við að vinna með ÍSÍ og Ungmennafélagi Íslands að uppsetningu sérstakra svæðisráða með hvatasjóð til að aðstoða börn af erlendum uppruna við að taka þátt í íþrótta- og tómstundastarfi, vegna þess að við settum á sérstaka tómstundastyrki en þeir stuðluðu bara ekkert að aukningu gagnvart börnum af erlendum uppruna. Þá þarf að nálgast það öðruvísi.

Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni að við þurfum að setja aukið fjármagn inn í þetta, ríki og sveitarfélög, eða breyta nýtingu fjármagnsins (Forseti hringir.) en við þurfum líka að hugsa hlutina svolítið upp á nýtt. Hvernig getum við náð til þessa hóps? Hvernig getum við aðstoðað hann við aðlögun að íslensku samfélagi? (Forseti hringir.) Íslenskan er lykillinn en líka inngildingin í íþrótta- og tómstundastarfi og fleiri þættir.