154. löggjafarþing — 60. fundur,  30. jan. 2024.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og stjórn fiskveiða.

521. mál
[14:41]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Þórarinn Ingi Pétursson) (F):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og lögum um stjórn fiskveiða, veiðistjórn grásleppu. Það geri ég fyrir hönd meiri hluta atvinnuveganefndar.

Þannig er nú í pottinn búið með flutning á þessu máli að það var til umfjöllunar og afgreiðslu atvinnuveganefndar á síðasta þingi, 153. löggjafarþingi. Málið hlaut þar endanlega afgreiðslu innan nefndarinnar og var afgreitt út úr nefndinni en kom síðan ekki til afgreiðslu hér á lokasprettinum síðastliðið vor. Í grunninn er frumvarpið flutt algjörlega óbreytt en inn í þetta nýja frumvarp sem við erum að flytja núna eru teknar inn þær breytingartillögur sem atvinnuveganefnd gerði á málinu á síðasta þingi þar sem sérstaklega eru tekin fyrir veiðisvæðin og sömuleiðis er farið yfir ýmis stærðartakmörk og annað en annars er nefndin sammála um að leggja frumvarpið fram í óbreyttri mynd og væntum þess að það fái hraustlega og almennilega umfjöllun hér, bæði innan nefndar og í þingsal.

Í grunninn, frú forseti, er verið að leggja til að aflastjórn eða aflamagnsstjórn verði tekin upp við veiðar á grásleppu. Eins og allir vita þá hefur grásleppa hingað til ekki verið í hlutdeildarkerfinu. Hvers vegna er verið að gera þetta? Jú, það er verið að mæta, að ég tel, ósk fjölmargra sem stunda þessar veiðar að menn geti haft að einhverju vísu að ganga þegar farið er til veiða. En ég geri mér líka grein fyrir því að málið er umdeilt innan stéttarinnar og þar af leiðandi er mikilvægt að taka annan snúning á málinu í atvinnuveganefnd, fara yfir það, senda til umsagnar og hlusta á álit þeirra sem vilja hafa skoðun á málinu. Ég veit að það eru fjölmargir aðilar sem hafa miklar og fjölbreyttar skoðanir. Við skulum ekki gleyma því að svo er.

Til gamans má geta þess, frú forseti, að í mínu fyrra lífi sem formaður sauðfjárbænda þá þurfti maður stundum að reyna að ræða ólík sjónarmið og í bændastétt voru þau fjölmörg og eru í dag og það sama getum við sagt þegar við förum að fjalla um veiðistjórn innan fiskveiðilandhelgi Íslands, hvernig henni skuli háttað. En það er mikilvægt af hendi meiri hluta atvinnuveganefndar að taka málið upp að nýju og fara yfir það, eins og áður hefur verið sagt, senda til umsagnar og klára málið, hvort sem það verður að lögum eða ekki. Það er ómögulegt að hafa það þannig að menn velta því fyrir sér: Erum við að fara í hlutdeildarsetningu? Verður þetta svona eða verður þetta hinsegin? Óskir um að menn fari þessa leið eru búnar að liggja fyrir til fjölda ára. Sömuleiðis er það þannig, og ég ætla ekki að gera lítið úr þeim sjónarmiðum, að menn vilja hafa óbreytt kerfi, þ.e. frjálsar veiðar með þeim takmörkunum sem eru og hafa snúist um teinalengd, netafjölda og daga sömuleiðis og ætla ég ekki að fara dýpra í þá útlistun en yfirleitt er þetta nú gert með reglugerðartilskipunum frá ráðherra.

En hérna er verið að tala um að koma grásleppunni í kvóta og það eru vissulega bæði sjónarmið með og á móti. Ég ætla nú að reyna að tala fyrir þeim sjónarmiðum að koma grásleppunni í það ferli að menn geti veitt hana innan vissra marka, geti gengið að því vísu hvað þeir mega veiða mikið o.s.frv. Það hafa komið ár þar sem grásleppa hefur gefið sig allhraustlega og verið gríðarleg veiði og mig minnir að það hafi verið árið 2020 þegar veiddist alveg óhemjumagn af grásleppu fyrir Norðurlandi. Það háttar þannig til að grásleppa gefur sig til veiða eða kemur upp á grunnslóð á misjöfnum tímum, kemur fyrst á Norðurlandi og síðan gengur hún vestur fyrir landið og kemur þar mun seinna. Þegar smábátasjómenn ætluðu að fara til veiða á Vesturlandi voru þeir stöðvaðir vegna þess að þá var búið að veiða það mikið magn að ekki var talið ráðlegt að setja meira magn inn á markaðinn. Svona lagað getur komið fyrir þegar verið er að stunda svokallaðar ólympískar veiðar. Þeir sem ætla sér að nýta það að fara til veiða á vissum tíma geta kannski setið uppi með svartapétur þegar að því kemur, því að þá er búið að veiða allt það magn sem æskilegt er í hvert skipti.

Það hefur komið fram að það er talað um ákveðin viðmiðunarár. Mér finnst rétt að geta þess hér að það er mjög mikilvægt að atvinnuveganefnd velti því fyrir sér allgaumgæfilega, af því að það eru aðilar sem hafa áhyggjur af því að lenda fyrir utan þetta viðmiðunartímabil og þurfum við að horfa til þess að þeir aðilar sem hafa t.d. verið að stunda þetta undanfarin tvö ár njóti sanngjarnrar úthlutunar úr þessum potti. Í fyrra frumvarpi var talað um þriggja ára tímabil þar sem menn gátu valið úr nokkrum árum og síðan er þá meðaltalið vegið á einhverjum þremur árum. Það eru aðilar í greininni sem hafa verið í sambandi við mig og lýst áhyggjum sínum hvað það varðar að þeir hafa verið í fjárfestingu, eru nýlega komnir inn í greinina o.s.frv. Við því þarf að bregðast. Við þurfum að reyna að mæta því og það verður verkefni nefndarinnar að tryggja að þeir sem eru nú þegar komnir til veiða og ætla sér að vera í þessum bransa sitji við sama borð.

Það er líka mikilvægt að hafa það í huga að í frumvarpinu er komið inn á það að reyna að tryggja nýliðum aðgang að þessum potti og er það tiltekið í frumvarpinu að ráðherra getur úthlutað vissu magni árlega til nýliða. Það er mjög mikilvægt. Það er líka mjög mikilvægt að hafa það í huga að við erum hér að tala um ákveðna svæðaskiptingu á landinu þannig að það magn grásleppu sem veitt er innan hvers svæðis getur ekki flust á milli svæða. Það er mjög mikilvægt. Ef það væri þannig að ekki yrðu settar hömlur á það að menn gætu verslað á milli svæða með aflaheimildir þá gætum við setið uppi með það að sum svæði færu halloka gagnvart öðrum svæðum og það viljum við ekki sjá. Því er reynt að fara þá leið og nálgast það á þann veg að vera með þessa svæðaskiptingu og setja hömlur á það að menn hafi viðskipti utan svæða.

Það má vel vera að sumum þyki þetta vera þröngur stakkur sniðinn hvað það varðar að menn geti ekki selt og gamblað með þetta fram og til baka en það ber að hafa í huga að við erum að horfa til þess að menn geti haldið áfram að stunda þessar veiðar á skipulegan hátt, þeir þurfi ekki endilega að vera bundnir tímabilum, dögum o.s.frv. Menn fara til sjós þegar viðrar, menn fara til sjós og reyna að veiða þegar grásleppa gefur sig. Lykilatriðið er að veiða þegar vel gefur, þegar það er hagstætt og hrognafylling í hámarki.

Það er nú einu sinni þannig að á vissum tímabilum er grásleppan að safna hrognum og síðan kemur að því að hún skilur við sig hrognin en það þarf að hitta á þetta, þetta er vandmeðfarið. Það þarf að hitta á þegar hrognaprósenta er í hámarki. Það hefur komið upp að menn hafa lent í því að veiða grásleppu en fylling grásleppunnar er afskaplega takmörkuð og þá eru menn kannski að veiða grásleppu sem hugsanlega hefði getað safnað ansi miklu til viðbótar áður en hún yrði veidd. Og þegar þú ert einu sinni búinn að taka hrogn úr grásleppu þá gerir þú það ekki aftur. Þetta er ekki eins og með ýmis önnur dýr sem framleiða aftur, en hér er veiðiaðferðin bara svoleiðis að það er ekki möguleiki. Allt þetta getur spilað að því að menn nái betri arðsemi í því sem þeir eru að gera, hafi meiri fyrirsjáanleika o.s.frv..

Frú forseti. Ég held ég hafi þetta ekki mikið lengra að sinni, það er bara mikilvægt að málið er komið fram að nýju. Vitanlega leggur meiri hlutinn sem stendur að málinu innan atvinnuveganefndar áherslu á að vinna málið vel og skila af sér sem fullbúinni vöru til þingsins til afgreiðslu. Það er verkefni okkar og sömuleiðis reikna ég með og vonast eftir líflegum umræðum um málið og athugasemdum og væri líka gott að menn legðu hér til málanna hvað betur mætti fara o.s.frv.

Ég legg áherslu á það að hér erum við að tala um mál frá meiri hluta atvinnuveganefndar sem tekur að sér að flytja málið. Á síðasta löggjafarþingi flutti matvælaráðherra málið og síðan eru bara breytt vinnubrögð þar sem er verið að horfa til annarra verka sem snúa að Auðlindinni okkar o.s.frv., þannig að grásleppan sat eftir. Það er því mikilvægt að atvinnuveganefnd hefur þessa leið til að taka upp málið, flytja það og taka það til vinnslu aftur.