154. löggjafarþing — 60. fundur,  30. jan. 2024.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og stjórn fiskveiða.

521. mál
[15:10]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það hefur komið skýrt fram hjá sérfræðingum Hafrannsóknastofnunar að kvótasetning hefði engin áhrif á fyrirsjáanleika, þ.e. hvenær veiðiráðgjöfin er tilkynnt og hún byggist annars vegar á niðurstöðum stofnmats botnfiska að vori og hins vegar að hluta til á stofnmati frá árinu áður. Það að það veiðist mikið fyrir Norðurlandi skaðar ekki þá sem eru á Vesturlandi. Það sem þarf að gera er að bæta núverandi kerfi. Það þarf að bæta núverandi dagakerfi, það er það sem þarf að gera, en ekki að rjúka til og kvótasetja allt til að auka síðan samþjöppun á þessum veiðum. Þetta eru mjög sérstakar veiðar að mörgu leyti og það eru margir sem veiða lítið og aðrir meira en það sem er grundvallaratriði sem kom fram í máli hv. þingmanns er að það eru raunverulega engir almannahagsmunir á bak við þetta en það er hins vegar krafa innan úr geiranum um að kvótasetja þetta. Þá getum við litið á það hvort menn ætli að fara að selja síðan kvóta þegar þar að kemur. Ég er í ágætu sambandi við sjómenn í mínu kjördæmi, þá sem vilja kvótasetningu (Forseti hringir.) og líka þá sem vilja það alls ekki en ég tel að þetta frelsi sem er í núverandi dagakerfi þurfi að bæta. (Forseti hringir.) Það þarf að tryggja að öll svæði geti veitt. (Forseti hringir.) Grásleppa sem er veidd fyrir Norðurlandi eyðir væntanlega ekki stofnum í Breiðafirði, það er annar fiskur. (Forseti hringir.) Það þarf að bæta núverandi kerfi. Það er það sem þarf að gera, ekki kvótasetningin.