154. löggjafarþing — 60. fundur,  30. jan. 2024.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og stjórn fiskveiða.

521. mál
[15:15]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Þórarinn Ingi Pétursson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Það er nú þannig, og ég held að ég hafi tekið það nokkuð skýrt fram, með það sem snýr að nýliðun að þar er ráðherra heimilt að úthluta til nýliða ákveðnu magni, svo það sé skýrt, ákveðnu magni. Mig minnir að það séu 5,3% af heildarmagninu sem ráðherra hefur til umráða miðað við það frumvarp sem um er rætt. Hv. þingmaður kemur sömuleiðis inn á það hvort við ætlum bara meiri hluti atvinnuveganefndar að vera hér með einhverja sýndarmennsku og taka málið inn til nefndar. Ef það er þannig að hv. þingmaður heldur það þá hefur hann ekki hlustað á eitt eða neitt af því sem ég sagði áðan, ekki eitt orð. (GIK: Ég hlustaði.) — Já, þá hlýtur hv. þingmaður að hafa tekið eftir því að það væri verið að taka málið inn til nefndar til að vinna það en ekki til að vera með einhvern sýndarveruleika og þykjast vera að gera eitthvað. Það er ekki það sem verið er að gera hér. Það er líka mjög mikilvægt að hafa í huga, og það kom mjög skýrt fram í máli mínu í andsvari við hv. þm. Ingu Sæland hér áðan, að þegar menn taka svona skref þá þurfa þeir að fara ofan í kjölinn og alltaf að fara í naflaskoðun á því sem þeir eru að gera, alltaf. Þar af leiðandi eru menn að leggja ákveðið frumvarp fram. Ef hv. þingmaður sem hér stendur, formaður atvinnuveganefndar, er að koma með frumvarp bara til þess að koma með það fram og afgreiða það á morgun þá er hv. þm. Guðmundur Ingi að lesa eitthvað skakkt í þann sem hér stendur.