154. löggjafarþing — 60. fundur,  30. jan. 2024.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og stjórn fiskveiða.

521. mál
[16:13]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Frú forseti. Ég er hingað kominn til að segja að ég styð þetta mál frá meiri hluta atvinnuveganefndar og er ánægður með að meiri hluti atvinnuveganefndar hafi náð því og komið sér saman um að leggja málið fram með þessum hætti. Nær óbreytt frumvarp var til afgreiðslu í atvinnuveganefnd á síðasta þingvetri en var ekki útrætt. Nefndin hafði á þeim tíma farið gaumgæfilega yfir málið, tekið til ítarlegrar þinglegrar meðferðar bæði með því að fá umsagnir og gesti og þar var alveg ljóst hvernig málinu væri háttað.

Um þá breytingu og það nefndarálit sem þá lá fyrir frá meiri hluta atvinnuveganefndar leyfi ég mér að segja að hafi verið mjög víðtæk sátt. Það er mikið ákall um breytingar á núverandi kerfi. Og af hverju er það, frú forseti? Það er einfaldlega af því að núverandi kerfi er meingallað. Það er meingallað og gengur ekki upp. Það er óskilvirkt. Það tryggir ekki hámarksnýtingu eða arðsemi af þessari auðlind. Það setur sjómenn sem þessa atvinnugrein stunda í hættu, býr til óeðlilega hvata og gengur einfaldlega ekki upp og er meingallað. Þess vegna er þetta lagt til og þess vegna styð ég þá breytingu að veiðar á grásleppu verði settar undir aflahlutdeildarkerfi eða kvótasett. Það er það kerfi sem við Íslendingar höfum í um 40 ár að meginstefnu byggt okkar auðlindanýtingu á í fiskveiðum landið um kring og heilt yfir hefur það gengið mjög vel. Það er komin góð reynsla á það hvernig slíkt kerfi virkar, hverju það getur náð fram. Það getur í fyrsta lagi augljóslega, og það skiptir mig miklu máli, náð fram mikilli hagræðingu, að við séum að nýta auðlindir landsins með sem bestum hætti. Hvernig gerist það? Jú, fyrst og fremst með því að lækka kostnað, lækka sóknarkostnaðinn, eyða óvissu og gera þeim útgerðum sem hyggjast sækja grásleppu kleift að skipuleggja sinn rekstur og hámarka arðsemi af sinni starfsemi. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli. Önnur rök eru þau að þá er dregið úr ólympískum veiðum, ef svo má segja, sem leiða til þess í núverandi kerfi að það er keppni um að sækja sjóinn á þeim dögum sem eru í boði. Það er þá freistandi að halda á sjó í slæmum veðrum. Þetta vitum við og þetta þekkjum við og höfum margar sögur af því hvernig sjómenn hafa lent í háska af þessari ástæðu, ekki eingöngu vegna veiða á grásleppu heldur líka í öðrum kerfum sem hafa þessar ólympísku veiðar eða þennan hvata í för með sér.

Það er til mikils unnið að koma á skynsamlegu kerfi sem dregur úr þessu og hefur öryggi sjómanna að leiðarljósi. Þeir geta þá stillt sig af og sótt á miðin þegar það gefur og það er gott veður. Veiði á grásleppu er með þeim hætti að það þarf að leggja net, þau þurfa að liggja í einhvern tíma og það er erfitt að gera það þegar veður gerast válynd. Með þessari breytingu er líka verið að sporna gegn veiðarfæratjóni. Við erum þá að sporna gegn slysum sem geta orðið við að net losni og drögum þannig úr áhrifum á umhverfið og lífríkið. Þetta hlýtur allt saman að skipta máli.

Það eru vissulega uppi andstæð sjónarmið og ég heyri það hér í þessum þingsal, af ræðum þingmanna sem hafa verið hér á undan mér. Það sem ég heyri og er sammerkt öllum þeim ræðum er andstaðan við kvótasetninguna bara sem slíka, á móti því fyrirkomulagi. En eins og ég kom inn á áðan, frú forseti, þá er kvótakerfið það kerfi sem reynst hefur okkur hvað best við að reyna að hámarka nýtingu okkar fiskveiðiauðlinda á helstu nytjastofnum þessa lands og grásleppan er ekkert undanskilin þeim hagkvæmnis- og reynslurökum um það hvernig það hefur gengið.

Við meðferð þessa máls á sínum tíma á síðasta þingvetri var það þannig að atvinnuveganefnd tók mjög til skoðunar og hlustaði eftir sjónarmiðum þeirra sem settu sig á móti þessari ráðstöfun. Það verður reyndar að segjast að það var mikill minni hluti allra þeirra umsagna sem bárust nefndinni um þetta mál sem mótmælti því að þessi leið yrði farin. Það var mikill meiri hluti þeirra sem stunda þessa atvinnu, ekki eingöngu frá útgerðinni heldur líka frá sveitarfélögum sem vita og þekkja hver reynslan hefur verið, þekkja gallana á núverandi fyrirkomulagi og sjá hversu mikill ávinningur það væri fyrir þessa atvinnugrein, fyrir þessar útgerðir og fyrir þessi svæði þar sem grásleppuveiðar eru stundaðar, að hrinda þessu í framkvæmd. En þeir sem höfðu uppi og tefldu fram öðrum sjónarmiðum — það er hlustað eftir þeim áhyggjum sem þar eru. Það eru áhyggjur um að kvóti fari brott af svæðinu. En það er brugðist við því með því að girða af og hólfsetja þetta eftir svæðum. Það eru takmarkanir á því og tekið fyrir það að framsal verði á aflaheimild milli svæða. Það eru líka takmarkanir sem ég leyfi mér að segja, frú forseti, að eru auðvitað allverulegar, t.d. að heildaraflahlutdeild einnar útgerðar í aflahlutdeild í grásleppu er ekki 2%, eins og frumvarp hæstv. matvælaráðherra á síðasta þingvetri gerði ráð fyrir, heldur lagði meiri hluti atvinnuveganefndar til á sínum tíma að markið yrði fært niður í 1,5%, úr 2% niður í 1,5%. Er þá að mínu mati um verulega takmörkun um að ræða þannig að ég blæs á þá gagnrýni, frú forseti, að með þessu sé verið að stuðla að einhverri samþjöppun aflaheimilda á hendur örfárra. Það er bara ekki þannig. Staðreyndirnar tala sínu máli. Það kann að vera og það er mín skoðun að ég er ekki hlynntur því að það séu settar of íþyngjandi takmarkanir eða girðingar, heldur sé það þá útgerðanna og þeirra sem til þekkja, sjómannanna, að sækja aflann í okkar sameiginlegu auðlind með sem lægstum tilkostnaði þannig að hægt sé að hámarka ávinning þjóðarinnar af veiðunum. Það verður gert í þessu tilviki með því að breyta um kerfi og kvótasetja grásleppu. Ég er sannfærður um að svo sé.

Það kann að vera, og ég horfi alveg til þess í þessu máli, að reynslan mun örugglega sýna fram á það á næstu árum að sumar þessar girðingar sem eru lagðar til í þessu frumvarpi gangi mögulega of langt. Þá er það verkefni löggjafans að hlusta eftir því og breyta því í ljósi reynslunnar ef fram koma sterk rök fyrir því að svo skuli gera. Af þeim ástæðum tel ég mikilvægt að segja að ekkert frumvarp sem komið hefur fram um breytt fyrirkomulag á stýringu grásleppuveiða hefur verið fullkomið. Ég er ekki sérstaklega hlynntur því og tel sumar þessara girðinga sem eru settar í þetta frumvarp jafnvel ganga of langt sums staðar.

En gott og vel, út frá þessum rökum að núverandi kerfi er meingallað, það er jafnvel hættulegt, það er hættulegt bæði umhverfi og þeim sem stunda þessa atvinnugrein, veiðar á grásleppu, þá styður það mjög svo sannfærandi og sterk rök fyrir því að ráðast í þessa breytingu.

Í stuttu máli, frú forseti: Ég er hlynntur þessu frumvarpi. Það verður spennandi að fylgjast með þinglegri meðferð málsins hjá atvinnuveganefnd. Vonandi tekst henni, eins og henni tókst á síðasta þingi, að fara í gegnum þetta mál nokkuð hratt en örugglega og með vönduðum hætti. En ég tel mikilvægt að málið nái fram að ganga og verði að lögum áður en næsta veiðitímabil á grásleppu hefst núna í vor.