154. löggjafarþing — 60. fundur,  30. jan. 2024.

stofnun ríkisfélags um rafeldsneytisframleiðslu á Íslandi.

9. mál
[16:52]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka undir það sem kemur fram í greinargerð málsins, að orkusjálfstæði er þjóðaröryggismál. Sá sem hér stendur hefur verið mjög upptekinn af því mjög lengi. Þetta er líka efnahagsmál. Staðan núna er að á undanförnum árum hafa menn verið að leggja umtalsverða fjármuni í þessa vinnu og auðvitað verið að bíða aðeins eftir vindorkunni og hvernig menn ætla að fara með það og síðan hvernig samspil vindorku, vatnsafls og jarðvarma verður og þá erum við komin að flutningskerfinu sem er lykilþáttur. Það urðu töluverðar breytingar, held ég, í pólitísku lífi Íslendinga, a.m.k. í orkumálum Íslendinga, þegar framkvæmdastjóri Landverndar tilkynnti það í byrjun mánaðar, sem mér finnst vera stefnubreyting miðað við undanfarin ár, að Landvernd styddi núna uppbyggingu flutningskerfis raforku, væri farin að skilja mikilvægi þess. Það er algjör grunnforsenda fyrir raforkukerfinu og nýtingu á þeirri raforku sem við framleiðum til fullnýtingar. En ég hef svolítið áhyggjur af því að ríkið sé að fara að taka fjárhagslega áhættu í svona verkefni, sem er áhættusamt. Það þarf gríðarlega mikla þekkingu og sterka og öfluga aðila til að standa á bak við svona hluti og það þarf gríðarlega mikla orku. Það hefur heyrst í þessari umræðu þegar ég hef fylgst með henni, hjá aðilum eins og í Reyðarfirði sem tala um að það þurfi að lágmarki, minnir mig, að byrja með 300–400 megavött í fyrsta áfanga. Það er því ljóst að hér er um stórt og mikið mál að ræða og þess vegna held ég að aðkoma ríkisins sé svolítið erfið. En auðvitað er hinn þátturinn sá hvað íslenskur almenningur fær, hvernig skatttekjur ríkisins verða eða hvað kemur frá þessari starfsemi í ríkissjóð. Það er kannski önnur umræða sem við þurfum að taka betur en ætti að afmarkast svolítið við það í umræðunni í staðinn fyrir að ríkið ætli bara að fara í ríkisvæðingu á þessu og fara í tekjuhliðina þeim megin frá.