154. löggjafarþing — 61. fundur,  31. jan. 2024.

Störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við höldum áfram að tala um fangelsi og fangana. Það ætlar sér enginn að lenda í fangelsi. Það vill enginn fara í fangelsi og þeir sem þar lenda eru staddir á sínum lægsta punkti í tilverunni. Umfjöllun Kveiks á RÚV í gærkvöldi ætti þess vegna ekki að fram hjá neinum. Líkt og hv. þingmenn Pírata hafa hér minnst á með mér í dag er þar skyggnst inn í heimkynni fanga sem afplána á Litla-Hrauni og raunveruleikinn er ekkert annað en hræðilegur. Núverandi húsakostur og heilbrigðisþjónusta, ef heilbrigðisþjónustu má kalla, sem býðst frelsissviptum hér á landi er algerlega óviðunandi. Það er ekkert erfitt að leita svara við því hvers vegna málum er svo fyrir komið, þetta strandar bara á pólitískri forgangsröðun fjármuna. Þetta er ekki í fókus og nær ekki fram fyrir röðina hjá ríkisstjórninni. Það er alveg sama hvar hönd á snertir, við getum rætt geðheilbrigði fanga, málefni kvenfanga, fjölskyldur fanga og börn og getu þeirra til að eiga gæðasamveru með foreldrum sínum því að börnin hafa nákvæmlega ekkert til saka unnið. Við getum líka nefnt aðstæður inni í fangelsunum, næringu fanga, tækifæri þeirra til náms og getu til að ná bata og frelsi frá fíkn, líkamlegt öryggi fanga og getu til þess að bæta hreinlega ráð sitt og snúa út í samfélagið reynslunni ríkari. Ég gæti líka talað lengi um aðstæður fangavarða á vinnustaðnum og mikilvægi þess að við fáum hæft starfsfólk til starfa. Það gefur augaleið að fólk fæst ekki til að vinna á stað sem er ónýtur.

Virðulegur forseti. Við þurfum að gerbreyta hugsunarhætti okkar í þessum málaflokki, segja skilið við vítahringinn því við vitum alveg hver hann er: Fangar hreinlega snúa aftur í afplánun. Það eru fáir ef einhverjir sem hafa getu til þess að öðlast trú á samfélaginu ef þeir fá þau skilaboð trekk í trekk að þeir séu einskis virði.