154. löggjafarþing — 61. fundur,  31. jan. 2024.

Störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég var á ráðstefnu á föstudaginn sem var skipulögð af borgarstjóra Amsterdam. Þar voru líka borgarstjórar Bern og Höfðaborgar, fyrrum borgarstjóri Prag og Bógóta í Kólumbíu. Ráðstefnan fjallaði um hvernig, en ekki hvort, ætti að lögleiða og regluvæða öll vímuefni. Allir voru þessir borgarstjórar sammála um að bann- og refsistefnan væri að valda meiri skaða en vímuefnin sjálf með því að búa til gríðarleg völd og ofbeldi glæpagengja ásamt því að stuðla að jaðarsetningu og dauðsföllum vímuefnanotenda. Á ráðstefnunni hélt fyrrum leynilögreglumaðurinn Neil Woods erindi um störf sín hjá fíkniefnalögreglunni í Bretlandi. Neil sagði frá því hvernig hann náði inn fyrir raðir stórs glæpagengis og náði að handtaka tugi manna og haldleggja mikið magn af vímuefnum. Hann lýsti því svo hvernig handtökurnar hefðu valdið truflun á ólöglegum fíkniefnamarkaði í sirka tvær klukkustundir. Margra mánaða vinna, gríðarlegur kostnaður, áfallastreituröskun þeirra lögreglumanna sem tóku þátt í aðgerðinni — eftir þann tíma, eftir þessa tvo klukkutíma, þá tóku aðrir ofbeldisfyllri og hættulegri menn við keflinu og allt hélt áfram eins og ekkert hefði í skorist.

Forseti. Ofbeldi elur nefnilega af sér meira ofbeldi. Í gærkvöldi fór Kveikur vel yfir stöðuna innan íslenskra fangelsa. Þar situr helmingur fanga inni vegna fíkniefnavanda, fíkniefnabrota, margir hverjir einstaklingar sem eiga sjálfir við mikinn og langvarandi fíkniefnavanda að stríða, einstaklingar sem hafa hvorki húsaskjól né bakland og sjá ekki neina möguleika út úr sínum aðstæðum. Borgarstjóri Bern sagði að hugmyndir um fíkniefnalausan heim væru blekking. Ofbeldið, harkan og magn fíkniefna hefur aldrei verið meira. Ólöglegur fíkniefnamarkaður fjármagnar aðra mun alvarlegri glæpi. Unga fólkið okkar deyr vegna mengaðra vímuefna og fangelsin okkar eru yfirfull af fólki sem þarf á samkennd og aðstoð að halda til að byggja sig upp en ekki meira niðurrif í formi refsinga í vanfjármögnuðum og niðurníddum fangelsum. (Forseti hringir.) Hvernig getum við réttlætt að halda áfram fíkniefnastefnu sem skila svona hræðilegri niðurstöðu fyrir samfélagið allt? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)