154. löggjafarþing — 62. fundur,  31. jan. 2024.

búvörulög.

33. mál
[17:50]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp um breytingu á búvörulögum, um afurðastöðvar í kjötiðnaði. Ég vildi bara rétt koma upp og taka undir meginmarkmið frumvarpsins. Eins og kom fram í máli framsögumanns er önnur tillaga komin til atvinnuveganefndar frá hæstv. matvælaráðherra sem snýr að svipuðum málum varðandi afurðastöðvarnar. Mér finnst þetta bara eðlileg nálgun sem hér kemur fram:

„Með frumvarpinu er lögð til breyting á búvörulögum í því skyni að undanþiggja afurðastöðvar í kjötiðnaði ákvæðum samkeppnislaga. Finna má svipaðar undanþágur fyrir afurðastöðvar í kjötiðnaði í helstu samkeppnislöndum Íslands og má í því sambandi benda á að innan Evrópusambandsins eru í gildi víðtækar undanþágur frá samkeppnislögum til að styðja við framkvæmd hinnar sameiginlegu landbúnaðarstefnu sambandsins.“

Hér í vetur höfum við náttúrlega rætt töluvert um gullhúðun. Maður veltir fyrir sér, eins og í þessu máli þegar við erum á öðrum stað heldur en við sjáum innan sambandsins, hvort hér hafi verið farið eitthvað lengra, ég þekki það ekki, farið í þyngri löggjöf sem snýr að þessu heldur en Evrópusambandið heldur uppi. Ég þekki það bara ekki og kannski veit framsögumaður málsins meira um þann þátt. Það kemur líka fram hér í frumvarpinu:

„Í alþjóðlegum samanburði eru innlendar afurðastöðvar í kjötiðnaði örsmáar og því ekki samkeppnishæfar við afurðastöðvar á erlendum mörkuðum sem eru mun stærri og hagkvæmari rekstrareiningar.“

Þetta ræddum við hér fyrr í dag. Framsögumaður málsins, hv. þm. Þórarinn Ingi Pétursson, kom líka inn á sameiningu í Eyjafirðinum, Kjarnafæðis og Norðlenska. Það eru mjög góðar fréttir af þeirri sameiningu og jákvæðar fréttir. Þetta skilar sér vonandi síðan vel til bænda, eins og hefur komið fram hér í dag, í hærra afurðaverði og það verði hægt að gera betur við bændur.

Þetta er almennt, þetta er ekki bara á Íslandi eða í Evrópu, þetta er mjög víða, þ.e. að bændur eiga mjög erfiða tíma og almennt er ekki verið að borga í heiminum það verð sem væri kannski eðlilegt miðað við margt annað sem við verslum. Meðalfjölskyldan í dag er kannski að verja 12–15% af tekjum í matvæli. Þegar maður ólst upp í kringum 1980 voru tölurnar svona 30%, 35–40% jafnvel, á öðrum tíma. Allt okkar kerfi hefur náttúrlega breyst gríðarlega varðandi stuðning við landbúnað eins og ég ræddi hér fyrr í vetur í fjárlagaumræðunni. Stuðningur við landbúnaðinn hefur væntanlega farið úr 5–6% í kringum 1980 en er kominn í innan við 1% af landsframleiðslu í dag þannig að það er mikil breyting á því.

Eins og kom fram í máli mínu í andsvari við hv. þm. Magnús Árna Skjöld Magnússon hér áðan er mikil umræða í Evrópu um þessi mál og staða bænda víða í Evrópu virðist vera mjög slæm þannig að hið fyrirheitna land ýmissa, Evrópusambandið, virðist ekki vera að virka eins og hefur kannski komið fram í umræðu á seinni árum. En það er mikið sem gengur á í dag. Auðvitað hefur Úkraínustríðið, bæði hér á landi og annars staðar, búið til mikið vandamál í áburðarkaupum og í fóðri og ýmsum aðföngum, byrjaði náttúrlega í Covid þegar aðfangakeðjurnar brustu og síðan með hörmulegri innrás Rússa í Úkraínu. Þetta er yfir allt. Síðan er hækkandi vaxtakostnaður og erfið rekstrarskilyrði þannig að það á náttúrlega að beita öllum mögulegum leiðum sem hægt er að finna til að bæta afkomu bænda og atvinnugreinarinnar. Mér sýnist að þetta mál sem hefur verið rætt hér áður í þinginu á síðustu þingvetrum geti hjálpað þar til. Mig grunar að í þessu máli sé bara um markaðsbrest að ræða. Það er erfitt að tala um hefðbundinn samkeppnismarkað í litlu ríki eins og okkar, örsmáu ríki, og að hefðbundin lögmál virki með sama hætti og við Sjálfstæðismenn sjáum almennt. Í þessu umhverfi getur eðlilega verið erfitt að koma því fyrir.

Við höfum á undanförnum árum verið í nánast stöðugum bráðaaðgerðum varðandi landbúnaðinn eins og við áttum í núna fyrir jólin í fjárauka, út af því ástandi sem ég var að lýsa hér áðan og hefur skapast á síðustu tveimur árum sérstaklega. Það var brugðist við í fjárauka í desember. Við þurfum að fara að sjá fram á betri tíma, vonandi með nýjum búvörusamningi sem við klárum eftir sirka tvö ár og stefnum á að vinna, endurskoðun er nýlokið og nú gefst tími til þess að fara dýpra í framhaldinu. Vonandi náum við að klára þessi mál og fleiri, það mætti alveg horfa til nokkurra mála þegar við erum að leita að meiri hagkvæmni í búrekstri. Þetta er bara ein leið til að gera þessa íslensku atvinnugrein hagkvæmari, landbúnaðinn. Það hefur verið að nást og góðar fréttir úr Dölum núna um verndandi arfgerð gegn riðu, það er jákvætt. Ég talaði mikið í desember um kyngreiningu á nautasæði. Mér finnst það risamál fyrir nautakjötið, hjá kúabændum. Það er stórt og mikilvægt mál. Þá kom ég líka inn á mikla möguleiki á að nýta verkfæri nákvæmnisbúskapar með hjálp hlutanets þar sem stafrænar upplýsingar með hjálp gervigreindar hámarka nýtingu á ræktarlandi. Við erum vel í stakk búin til að innleiða slíka tækni. Við höfum öflugar fjarskiptatengingar í sveitum sem mögulega gætu nýst í garðyrkju og annarri jarðrækt. Við þurfum líka að hafa von í því að horfa til framtíðar með jákvæðum hætti um það sem hægt er að gera.

Það sem við ræðum hér í dag er hluti af endurskoðun á starfsumhverfi afurðastöðva og úrvinnslustöðva í landbúnaði. Það getur verið aukin sérhæfing, verkaskipting og tæknivæðing. Það hefur ekki verið hægt að byggja á Íslandi um áratugaskeið nýtt sláturhús t.d. eða nýja mjólkurstöð frá grunni. Hvað segir það okkur um atvinnugreinina og þrótt hennar að hafa hreinlega ekki getað sótt nýjustu tækni í miklu stærri stíl heldur en hefur verið gert? Sambærilega tækni höfum við séð í íslenskum sjávarútvegi, í fiskvinnslu, síðustu 30 ár. Með því að skapa þessa möguleika án þess að slíkt bitni á neytendum komast fyrirtæki í landbúnaði og bændur í sókn. Allt mun þetta stuðla að hagkvæmari landbúnaði og meiri samkeppnishæfni íslensks landbúnaðar þannig að það er mikilvægt.

Það hefur verið gerð úttekt á vegum Ríkisendurskoðunar á framkvæmd og eftirliti með innflutningi á búvörum. Það er í rauninni sorglegt hvernig tollverndin frá 2015, 2016 eða 2017, u.þ.b., þegar var farið í hana, hefur reynst illa. Eins og framsögumaður þessa máls kom inn á áðan var í síðasta tollkvótaútboði nautakjötið á 1 kr. Það segir ansi mikið um erfiða stöðu sem snýr að þessu. Einnig höfum við rætt líka um vörunúmer og annað, að það standist ekki á við innflutninginn að utan hvað kemur fram í tölum innan lands. Það er mikilvægt að fá svör um hvernig stendur á því að það sé verið að flytja inn til landsins, það hefur verið vandamál, undir röngum tollnúmerum. Við þurfum að ræða tollverndina betur og hvernig hún hefur brunnið upp á síðustu árum.

Það er mín tilfinning að bændur séu til í að breyta og endurhugsa en hvernig förum við að því þegar afkoman er eins slæm og hún hefur verið? Þetta er sérstaklega erfitt akkúrat í þessu umhverfi sem er núna. Vonandi er það aðeins að batna, við sjáum lækkun verðbólgu og vaxtakostnaðurinn er á niðurleið og í innflutningi á áburði erum við farin að sjá merki um að hlutirnir séu eitthvað að lagast.

Meðan ég man, ég vil nefna að meðalaldur íslenskra bænda er 57 ár, ég gleymdi að koma inn á það áðan. Það er töluvert hátt. Það er alvarlegt. Það þýðir að meðalbóndinn er eldri en sá sem hér stendur. Í Þýskalandi spurði ég nákvæmlega þessarar spurningar. Þar er meðalaldurinn ekki 57 ár heldur 61 ár. Þýskir bændur eru að meðaltali að komast á eftirlaun og meðalaldur þýskra bænda er eiginlega að ná eftirlaunaaldri og meðalaldurinn hækkar og hækkar þrátt fyrir hina svokölluðu landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins. Þetta er litið gríðarlega alvarlegum augum þar, ef það verða ekki til bændur til að framleiða vöruna. Ég varð að koma þessu að, svona um það hvar við erum stödd og þetta skiptir auðvitað gríðarlega miklu máli.

En svona til þess að ljúka þessu þá vil ég bara þakka fyrir þetta mál, ég get ekki betur séð en að ég myndi styðja þetta mál þegar ég les það yfir og ég hef kannski útskýrt hér aðeins af hverju ég myndi gera það. En mér finnst bara almennt, og eins og ég sagði í ræðu hér fyrr í vetur þegar ég var að ræða málefni landbúnaðarins, af því að við erum líka að ræða orkumál mikið hérna í þinginu og erum náttúrlega komin í bölvað strand með þau mál. Sá sem hér stendur hefur mikið rætt það undanfarin ár. Við nálgumst orkuskiptin út frá þeirri hugsun að það varði efnahagslegt sjálfstæði okkar að framleiða sem mest af orku. En það er alveg sama efnahagslega sjálfstæðið undir þegar við veikjum undirstöður innlendrar matvælaframleiðslu. Matur og orka eru hornsteinar í sjálfstæði þjóðar og því skulum við aldrei gleyma. — Ég hef lokið máli mínu, herra forseti.