154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

ástandið í fangelsismálum og fjárheimildir til þeirra.

[10:35]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og ég vil nota þetta tækifæri líka til að þakka Ríkisútvarpinu fyrir þann þátt sem sýndur var í sjónvarpinu í fyrrakvöld og varpaði ljósi á alvarlega stöðu fangelsisins á Litla-Hrauni. Það er rétt að fyrrverandi ráðherra var búinn að sækja fé til að fara í endurbætur á fangelsinu á Litla-Hrauni og þar stóð til að byggja viðbyggingu sem og að bæta húsakostinn sem er á Litla-Hrauni. Þegar framkvæmdir áttu að hefjast í júní á síðasta ári var það niðurstaða Framkvæmdasýslu ríkisins að það svaraði ekki kostnaði og væri í raun eins og að fleygja peningum að ætla að fara með rúmar 2.000 milljónir í endurbætur og viðbyggingu. Það var niðurstaða mín þegar ég kom inn í ráðuneytið að hefja tafarlaust uppbyggingu á nýju fangelsi. Hins vegar liggur það fyrir að Framkvæmdasýsla ríkisins telur sig geta gert nauðsynlegar lagfæringar á þeim húsakosti sem nú er til að halda starfsemi þar í fimm, sex ár. Það mun aftur á móti kosta nokkur hundruð milljónir.

Já, ráðherra telur að við getum haldið lágmarksviðhaldi á þessum húsakosti til að tryggja að starfsemi geti verið á Litla-Hrauni næstu fimm til sex árin.