154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

Reykjavíkurflugvöllur og ný byggð í Skerjafirði.

[10:53]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég sagði að lokun vallarins væri ein af aðgerðunum, þ.e. að oftar yrði lokað vegna vindaskilyrða og þar fram eftir götunum, væri ein af mótvægisaðgerðunum en ekki sú eina. En má þá skilja það sem svo að ráðherra líti þannig á að frekari inngrip innviðaráðuneytis í málefni uppbyggingar í Nýja-Skerjafirði séu ekki í spilunum, að ráðherra líti svo á að þau inngrip sem þegar hafa átt sér stað í þeim efnum séu fullnægjandi og verði látin duga? Það blasir auðvitað við að það hvort byggður verður völlur í Hvassahrauni eða ekki skiptir í raun ekki máli gagnvart því atriði að sú byggð sem Reykjavíkurborg áætlar í Nýja-Skerjafirði verður löngu risin áður en flugvöllur verður nokkurn tímann orðinn byggður í Hvassahrauni eða hvar annars staðar sem hann gæti risið eða verið lagður.