154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

störf Norrænu ráðherranefndarinnar 2023.

643. mál
[12:06]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir hans ræðu og þessa fínu skýrslu sem við í Íslandsdeild Norðurlandaráðs munum örugglega nýta okkur vel og það er gott að hafa á einum stað upplýsingar um hvað norræna ráðherranefndin er að gera og hvaða stofnanir eru þar undir. Líkt og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir sagði hér áðan þá er norrænt samstarf afskaplega mikilvægt fyrir okkur Íslendinga og líkt og hæstv. ráðherra sagði erum við sterkari saman, við eigum rætur í sögunni og við eigum rætur í menningunni o.s.frv. Það sem ég hef áhyggjur af varðandi norrænt samstarf er í fyrsta lagi það að ríkisstjórnirnar í norrænu ríkjunum vilja ekki láta norrænt samstarf taka jafn mikið pláss í fjárhagsáætlun landanna eins og var t.d. árið 1995. Við höfum séð bara frá þeim tíma að hallatalan er neikvæð. Norrænt samstarf tekur alltaf hlutfallslega minna og minna pláss í fjárhagsáætlunum og fjárlögum norrænu ríkjanna. Það er einfaldlega þannig að ef við ætlum að auka norrænt samstarf og efla þá kostar það peninga. Það er þannig. Ég veit að hæstv. ráðherra hefur tekið undir þau sjónarmið, þ.e. íslenski samstarfsráðherrann, á meðan önnur norræn ríki hafa ekki tekið svo vel í það. Við vorum kannski að ná smá árangri í þeirri umræðu, fannst mér, fyrir Covid og svo þegar Covid kom þá hrökk einhvern veginn allt aftur til baka af því að það voru auðvitað efnahagsþrengingar í tengslum við Covid. En á sama tíma og fjárframlögin eru að dragast saman, ef við horfum á landsframleiðslu landanna þó að það sé kannski ekki í krónutölum, þá telja næstum allir íbúar norrænu ríkjanna norrænt samstarf afskaplega mikilvægt og kalla eftir auknu norrænu samstarfi og raða því fremst þegar talað er um alþjóðlegt samstarf í norrænu ríkjunum. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra taki þau skilaboð bara sterkari inn í samstarfið áfram og það munum við auðvitað gera í Íslandsdeild Norðurlandaráðs og núna í formennsku á formennskuárinu.

En það er annað sem ég vil nefna. Sumir segja, forseti, að heimurinn hafi ekki verið eins hættulegur í 50 ár og hann er einmitt nú í dag. Norrænu ríkin hafa gott orðspor, það hefur ríkt friður á milli norrænu ríkjanna í meira en 200 ár og þau hafa gott orðspor í því að leiða saman stríðandi fylkingar og tala fyrir friði og friðsamlegum lausnum. Þess vegna fannst mér sú áhersla í formennskuáætlun Íslands í norrænu ráðherranefndinni að draga það fram að Norðurlöndin væru afl til friðar svo mikilvæg og hún er enn mikilvægari í dag því að því miður þá fer einhvern veginn ástandið versnandi og stríðandi fylkingum fjölgandi í heiminum í kringum okkur. Það ógnar velferðinni, ekki bara í þeim ríkjum þar sem stríð geisar heldur hefur þetta neikvæðar aukaverkanir og alveg hingað til okkar. Þannig að friður og friðsamlegar lausnir eru afskaplega mikilvægar og ég vona að norrænu ríkin geri sig gildandi. Noregur er auðvitað með ákveðna sögu í þeim efnum en það er von mín að hinar norrænu þjóðirnar fylki sér einnig saman og leggi meiri áherslu á það og hermi svolítið eftir Noregi í þeim efnum, ekki síst núna á síðustu vikum og mánuðum í þeirra afstöðu til ástandsins við botn Miðjarðarhafs. Noregur þekkir það afskaplega vel og hefur beitt sér þar fyrir friðsamlegum lausnum og fyrir hjálparstarfi og við eigum að horfa þangað ef við erum að leita fyrirmynda í þeim efnum.

Að lokum, forseti, þá getum við tengt saman umhverfis- og loftslagsmál og frið á norðurslóðum vegna þess að um leið og ísinn bráðnar á norðurslóðum og auðlindirnar verða aðgengilegar þá fjölgar þeim sem vilja næla sér í sinn hlut í þeim auðlindum. Við þurfum að gæta að þeim íbúum sem búa á norðurslóðum, að það séu þau sem fá þá að njóta nýtingu auðlindanna, vilji þau að þær verði nýttar og með hvaða hætti. Við þurfum að viðurkenna og horfast í augu við það að hernaðaruppbygging t.d. Rússa á norðurslóðum er staðreynd og við vitum að bæði Kína og Bandaríkin eru að horfa þangað og sjá einhverja ógn í þessari hernaðaruppbyggingu og kannski í kapphlaupinu um auðlindir á norðurslóðum. Þetta er bara eitthvað sem við þurfum að þora að tala um og við þurfum að draga upp hvað það er sem getur ógnað friði á norðurslóðum og vinna síðan í því að draga úr þeim ógnum. Trump vildi nú fyrir nokkrum árum síðan kaupa Grænland og auðvitað var sú hugmynd bara einhver brandari sem var blásið á en ég held að við þurfum samt að hafa sem áður áhyggjur af því að forysta og nýr forseti í Bandaríkjunum gæti látið sér detta eitthvað svipað í hug og það væri kannski ekki svo langt undan, því miður. Við þurfum því að gæta að íbúum norðurslóða og við þurfum að passa upp á menningu okkar og sögu. Það sem hefur gerst á undanförnum árum í norrænu samstarfi er að við höfum varið tíma okkar mikið í að ræða um öryggi og varnir og hernaðaruppbyggingu og varnarsamstarfið núna þegar öll ríkin fyrirsjáanlega verða komin í NATO. Síðan næst á eftir því höfum við talað um peninga og að við þurfum fleiri krónur í norræna samstarfið. Og umræðan um menninguna og menntunina, þessar sterku stoðir sem standa undir norrænu samstarfi úti í samfélögunum, úti í grasrótinni, hefur bara verið minni meðal okkar sem erum í norrænu samstarfi heldur hefur líka verið skorið niður fjármagn til þeirra mikilvægu verkefna. Ég hef áhyggjur af þessu því að þetta eru sterku stoðirnar undir samstarfið, meðal grasrótarinnar, úti í samfélaginu í norrænu ríkjunum og um leið og við erum búin að kippa þeim stoðum undan erum við í vondum málum.

Við eigum að horfa til sögunnar, til menningarinnar og til menntunarinnar. Vissulega eigum við að horfa til grænna lausna en það er verkefni alls mannkyns að glíma við hlýnun jarðar og afleiðingar af því öllu saman. Við eigum auðvitað að taka þátt í því eins og aðrar þjóðir en norrænu stoðirnar eru það sem við þurfum að gæta sérstaklega að, norrænu ríkin, því að það gerir enginn annar fyrir okkur.

Herra forseti. Ég vil þakka aftur fyrir þessa fínu skýrslu og þakka hæstv. ráðherra fyrir samstarfið og hans góða tón sem hann lagði inn í þetta samstarf milli Norðurlandaráðs og norrænu ráðherranefndarinnar.