154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

norrænt samstarf 2023.

625. mál
[13:04]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek svo sannarlega undir það og vil kannski ítreka líka borgaralegt hlutverk starfsmanna, þ.e. Íslendinga, í þessu alþjóðastarfi eins og í Kabúl með flugumferðarstjórnina þar og rekstur flugvallarins og síðan höfum við líka Pristína í Kósovó, svipað verkefni á sínum tíma þar sem gengið var enn þá lengra og við þjálfuðum raunverulega upp flugumferðarstjórana í því verkefni. Hv. þingmaður kom líka í ræðu sinni inn á þátt Landhelgisgæslunnar sem ég hef mikið talað um hér á undanförnum árum og vill leggja mikið til. Þetta er raunverulega okkar svona, já, okkar stærsta hlutverk hjá NATO. Við höfum ekki her en við höfum þessa landhelgisgæslu og tökum að okkur borgaraleg störf eins og á radarstöðvunum og í rekstri sem tengist því. Ég tel að Landhelgisgæslan sé okkar stærsta hlutverk upp á að byggja eitthvað upp og þá vil ég líka einmitt leggja til að við skoðum hvaða samvinnu við getum haft og helst við okkar nágrannaþjóðir. Það var bent hér í ræðum á Dani og Norðmenn, það er kannski eðlilegast að líta til þeirra og annarra NATO-ríkja. Nú eru Danir að fara í miklar framkvæmdir. Þeirra varðskip, fjögur varðskip, Triton, Hvidbjørn og hvað þau nú heita, eru 30 ára gömul. Nú tóku þeir þá ákvörðun fyrir rúmu ári síðan að fara í fjárfestingar og byggja upp þessi skip og þau eiga að taka við þessu hlutverki innan tíu ára. Svæði leitar og björgunar sem er stýrt frá Íslandi er 20 sinnum stærra en Ísland. Landhelgi okkar, íslenska efnahagslögsagan, er svona rétt um átta sinnum stærra en Ísland sjálft. Ég velti fyrir mér hvort þetta sé ekki í raun vettvangurinn sem við ættum að fara í og vinna með, með Dönum með Atlantshafið og Grænland og síðan með Norðmönnum og þessum nágrannaríkjum okkar.