154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

norrænt samstarf 2023.

625. mál
[13:27]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir hans ræðu. Ég veit ekki hvort ég sé sammála því sem kemur fram í ræðu hv. þingmanns að hér sé verið að geyma litla herstöð í byggingu suður á Keflavíkurflugvelli, það sé hugmyndin á bak við. Ég hef meira litið á þetta og skilið málið þannig í kynningum að hér væri verið að geyma á lendingarstað, á litlum flugvelli, helsta búnað sem gæti þá verið hægt að fara með á slóðir þar sem þyrfti á að halda með skömmum fyrirvara. Ef hv. þingmaður hefur eitthvað frekar um þetta að segja þá væri bara fínt að fá það fram.

Ég kom aðeins inn á rannsóknir og umræðu á Íslandi sem snýr að varnar- og öryggismálum. Sá sem hér stendur hefur verið með hér í fyrra og aftur núna, þennan þingvetur og þann síðasta, tillögu um að stofnað yrði til rannsóknarseturs um öryggis- og varnarmál á Íslandi til að efla einmitt þessa þekkingu. Er hv. þingmaður sammála þeirri nálgun að við hér á þingi tökum það skref að samþykkja slíka tillögu þannig að það kæmu skýr skilaboð til ríkisstjórnarinnar um að slíku setri yrði komið á koppinn sem snýr að því að efla þekkingu á þessu sviði og hvernig því væri háttað?

Síðan ætla ég kannski að koma bara í seinna andsvari inn á áhrif á Norðurlöndin vegna innrásar Rússa í Úkraínu og þróunina þar, ég sé að það eru svo fáar sekúndur eftir að ég ætla að bíða með það fram í seinna andsvar.