154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið 2023.

656. mál
[14:54]
Horfa

Frsm. ÞEFTA (Ingibjörg Isaksen) (F):

Frú forseti. Ég flyt hér skýrslu Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA og EES fyrir árið 2023. Fríverslunarsamtök Evrópu, EFTA og Evrópska efnahagssvæðið, EES, gegna veigamiklu hlutverki sem grunnstoðir íslenskrar utanríkisverslunar. Með aðildinni að EES njóta Íslendingar að langmestu leyti sömu viðskiptakjara og 30 önnur Evrópuríki með rúmlega 460 milljóna manna markað. Auk þess að koma að rekstri EES-samningsins hefur EFTA byggt upp öflugt net fríverslunarsamninga við ríki utan ESB, svonefnd þriðju ríki.

Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES myndar sendinefnd Alþingis, bæði í þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES. Þá myndar Íslandsdeildin ásamt fjórum þingmönnum úr utanríkismálanefnd sendinefnd Alþingis í sameiginlegri þingmannanefnd Íslands og ESB.

Árið 2023 áttu sæti í Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA og EES eftirfarandi aðalmenn: Ingibjörg Isaksen formaður, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir varaformaður, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Diljá Mist Einarsdóttir og Gísli Rafn Ólafsson. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir tók svo sæti Gísla Rafns í september síðastliðnum. Ritarar Íslandsdeildar voru Gunnþóra Elín Erlingsdóttir fram til 31. október og eftir það Eggert Ólafsson, lögfræðingur EES-mála.

Þingmannanefndin sótti alls sjö fundi á árinu og var starfsemi hennar með hefðbundnum hætti. Tveir þessara funda voru í tengslum við fundi nefndarinnar með ráðherrum EFTA og fjölluðu einkum um græna tækni, styrkjakerfi á heimsvísu og stefnu ESB á sviði efnahagsöryggis. Þá átti nefndin fund með utanríkisráðherrum EFTA-ríkjanna innan EES um EES-samstarfið. Framkvæmdastjórn þingmannanefndarinnar átti einnig fundi með þingnefndum, ráðherrum, stofnunum og hagsmunaaðilum í Nýju Delí og Mumbai um fríverslunarmál og aukið efnahagslegt samstarf í ljósi þess að fríverslunarviðræður EFTA-ríkjanna og Indlands standa yfir.

Staða Úkraínu í kjölfar innrásar Rússlands var áberandi í starfi þingmannanefndarinnar síðastliðið ár eins og árið þar á undan. Hinn 27. júní var sérstök athöfn í Schaan í Liechtenstein samhliða fundi þingmannanefndarinnar og ráðherra til að marka upphaf viðræðna við Úkraínu um endurbættan og nútímalegri fríverslunarsamning. Samhljómur var um að um mikilvægt skref væri að ræða. EFTA-ríkin hefðu sýnt Úkraínu stuðning í verki, m.a. með því að kalla eftir að Rússland léti af árásum á Úkraínu. Á árinu var jafnframt fjallað um þvingunaraðgerðir ESB gegn Rússlandi sem EES-EFTA-ríkin hafa tekið þátt í. Fjallað var um nýjar þvingunaraðgerðir sem ætlað er að koma í veg fyrir að aðilar komi sér undan reglunum. Þá var einnig rætt um mögulegar aðildarviðræður Úkraínu við ESB en Úkraínu var formlega veitt staða umsóknarríkis að ESB í júní 2022 og í desember síðastliðnum samþykkti ESB að hefja viðræður við Úkraínu.

Þá var þróun alþjóðaviðskipta, viðskiptastefna ESB og aðgerðir til að bæta samkeppnisstöðu innri markaðarins jafnframt áberandi umfjöllunarefni. Fjallað var um iðnaðaráætlun græna sáttmála ESB sem og um tvær tillögur að lagasetningu, annars vegar um aðgengi að hrávörum innan ESB og hins vegar um kolefnislausan iðnað. Tillögur þessar miða m.a. að því að draga úr hættu á því að ESB verði háð einstökum ríkjum um mikilvægar hrávörur eða um orkugjafa. Þeim er jafnframt ætlað að stuðla að umhverfisvænni framleiðslu orku og tækni á innri markaði.

Þingmannanefnd EES fundaði tvisvar sinnum á árinu og var venju samkvæmt fjallað um þróun og framkvæmd EES-samningsins á þeim fundum. Á fyrri fundi nefndarinnar í Strassborg í mars fjölluðu nefndarmenn Íslandsdeildarinnar um fyrirhugaðar breytingar á EES-löggjöf um viðskiptakerfi með losunarheimildir fyrir flug, sérstöðu Íslands og þeim verulegu áhrifum sem þær kæmu til með að hafa á íslenska hagsmuni yrðu þær teknar óbreyttar upp í EES-samninginn.

Fríverslunarsamningagerð EFTA við þriðju ríki var ofarlega á dagskrá þingmannanefndar EFTA. Fríverslunarsamningar fela í sér lækkun tolla og aukinn fyrirsjáanleika í alþjóðaviðskiptum, t.d. með ákvæðum um upprunareglur og takmörkunum á beitingu tæknilegra viðskiptahindrana. EFTA hefur verið í fararbroddi á heimsvísu í gerð fríverslunarsamninga. Í júní var fríverslunarsamningur við Moldóvu undirritaður og eru gildir samningar nú 30 talsins og taka til 41 ríkis. Samanlagt eru þessi fríverslunarsamstarfsríki næststærsti útflutningsmarkaður EFTA á eftir ESB með 12% hlutdeild í vöruútflutningi EFTA. EFTA á nú í fríverslunarviðræðum við Indland, Malasíu, Kósovó og Víetnam. Þá var, líkt og ég gat áður, tilkynnt um upphaf viðræðna við Úkraínu um uppfærðan fríverslunarsamning. Þingmannanefnd EFTA hefur á undanförnum árum stutt dyggilega við gerð fríverslunarsamninga EFTA og beitir sendinefndum og þingmannaheimsóknum til þess að kynna slíka samninga og afla stuðnings við gerð þeirra, líkt og í heimsókn til Indlands í apríl sem ég gat um hér á undan.

Frú forseti. Nánar er gerð grein fyrir því sem fram fór á fundum nefndarinnar í fylgiskjölum skýrslu þeirrar sem hér er mælt fyrir og vísa ég til hennar varðandi frekari upplýsingar um störf nefndarinnar. Ég vil að lokum nýta tækifærið hér og þakka félögum mínum í Íslandsdeildinni sem sitja núna þar og einnig þeim sem þurftu frá að hverfa og er mikið saknað, en ég vil þakka þeim fyrir gott samstarf á þessum mikilvæga vettvangi.