154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið 2023.

656. mál
[15:09]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka framsögumanni, hv. þm. Ingibjörgu Isaksen, fyrir þessa góðu skýrslu og þessa ágætu kynningu á þessu mikilvæga máli sem snertir Evrópusamstarf okkar Íslendinga og er þá auðvitað örlítið tilefni til að tala um Evrópumál og Evrópusamstarf okkar ágæta ríkis og okkar ágætu þjóðar. Helstu vörðurnar, við þekkjum þær auðvitað. Eftir síðari heimsstyrjöld, þegar ríki Evrópu fóru að hugsa um aðferðir til að vinna saman á efnahagssviðinu og til þess að tryggja í grunninn að aldrei myndi endurtaka sig hildarleikur síðari heimsstyrjaldarinnar, fengum við Íslendingar snemma ákveðinn áhuga, því að við erum í nánu samstarfi og nánum tengslum við þessa ágætu granna okkar, á því að taka þátt í þessu starfi. Árið 1961 var gerð út af örkinni sendinefnd frá íslensku ríkisstjórninni undir forystu viðskiptaráðherra, Gylfa Þ. Gíslasonar, og var hún send í heimsóknir til allra helstu höfuðborga Evrópu, þ.e. höfuðborga þeirra sem tóku þátt í Efnahagsbandalagi Evrópu á þeim tíma, til að kanna með hvaða hætti Íslendingar gætu nálgast þetta samstarf. Það sem kom út úr því var að skynsamlegast og heppilegast fyrir Íslendinga og bandalagið á þeim tíma væri að Ísland gerðist aukaaðili að bandalaginu.

Þetta var svo sem ekki skoðað nánar vegna þess að á sama tíma voru að eiga sér stað aðrir atburðir sem höfðu mikil áhrif á þetta allt saman. Bretar höfðu sótt um aðild en þeim var hins vegar neitað um hana af hálfu Frakka og beitti forseti Frakklands, Charles de Gaulle, beinlínis neitunarvaldi sínu gegn umsókn Breta. Umsóknir annarra sem sótt höfðu um á sama tíma voru þar með út af borðinu og þar af leiðandi þessi umræða um aukaaðild okkar Íslendinga líka. Við hins vegar létum ekki deigan síga og árið 1970 gengum við í EFTA, sem hér er til umræðu í dag, vitaskuld eftir harðvítugar umræður í þessum sal þar sem öllum sömu rökunum og hefur jafnan verið beitt gegn auknu Evrópusamstarfi var beitt gegn því að ganga í EFTA. Endurtekning á þeirri atburðarás má segja hér innan þings varð svo áður en við gengum í Evrópska efnahagssvæðið árið 1994. Umræðurnar um það fóru fram hér 1992, ef ég man rétt, og enduðu með því að við ákváðum að stíga það skref, heillaskref eins og kemur ágætlega fram í skýrslu þeirri sem hér var kynnt. Við erum hluti af Schengen. Við erum hluti af þessu fjórfrelsi Evrópusambandsins sem aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu og við höfum auðvitað orðið fyrir mjög miklum áhrifum af þessari þátttöku okkar allri saman. Hér hefur efnahagurinn dafnað á þessu opna markaðssvæði. Við höfum séð mikla fólksflutninga hingað til Íslands en við að sama skapi höfum séð að Íslendingar hafa nýtt sér þau tækifæri sem Evrópska efnahagssvæðið hefur boðið upp á, bæði til að stunda viðskipti og til að búa og nema í öðrum löndum Evrópska efnahagssvæðisins.

Síðan kemur hrunið 2008 og breytir talsvert miklu. Við þekkjum það öll sem hér sitjum inni að þeir atburðir allir saman leiddu til þess að Ísland sendi inn aðildarumsókn að Evrópusambandinu 16. júlí 2009. Við tóku samningaviðræður sem tóku allt það kjörtímabil og voru, eins og þingheimur þekkir, settar á ís í aðdraganda kosninga árið 2013. Þá höfðu 27 af 33 samningsköflum verið opnaðir. Það hefði verið lokið við 11 og það eru sem sagt 14 kaflar í þessu samstarfi sem eru utan Evrópska efnahagssvæðisins, taka ekki til þess samstarfs sem við erum í, þar á meðal auðvitað mikilvægir málaflokkar á borð við landbúnað og fiskveiðar.

Afstaða Íslendinga til aðildar að Evrópusambandinu hefur verið dálítið sikksakk-kennd og eins og víða annars staðar þannig að því nær sem stjórnvöld eru því að ganga í Evrópusambandinu, því fjær eru kjósendur og öfugt. En við höfum séð það undanfarin ár að áhugi þjóðarinnar á því að skoða þann kost að ganga í Evrópusambandið hefur aukist og er núna drjúgur meiri hluti fyrir því að stíga það skref að kanna hvort hugur þjóðarinnar standi ekki til að sækja um aftur eða endurvekja þessa aðildarumsókn.

Við höfum séð að það er ýmislegt sem hefur haft áhrif á þessa umræðu, frú forseti. Brexit hafði auðvitað ekki góð áhrif á umræðuna þó svo að eftirmálar Brexit hafi kannski frekar orðið til þess að hvetja til áhugans því að sú útganga hefur ekki verið Bretum sérlega hagfelld. Stríðið í Úkraínu hefur auðvitað haft áhrif líka og sú samstaða sem Evrópuþjóðir hafa sýnt með Úkraínu þar og sá eindregni vilji sem við sjáum í austurhluta Evrópu til að taka þátt í þessu samstarfi hefur blásið nýju lífi í hugmyndina um að stækka sambandið.

Þessi skýrsla er fín og fjallar vel um okkar þátttöku í þessu starfi og lýsir að einhverju leyti áhrifum Evrópusambandsins á íslenska löggjöf. En þá rifjast upp fyrir mér orð sem ágætur maltneskur vinur minn sagði við mig einhvern tímann. Hann sagðist ekki skilja þetta alveg: Ísland vill fyrir alla muni taka þátt í meira og minna öllu sem Evrópusambandið gerir en þverneitar að taka þátt í að stjórna því. Þetta fannst honum mjög skrýtið.

Evrópusambandið, ég kom inn á það í ræðu í gær þar sem ég var að tala um bæði landbúnaðarmál og einhver önnur mál líka, er meira heldur en bara efnahagsmál. Það er samfélag og það er samtal. Hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson lýsti þessu ágætlega áðan þegar hann talaði um mikilvægi tengslanetsins í þessum þingmannahópi EFTA. Þarna verður til samtal. Þarna er hlustað á áhyggjur og hægt að koma á framfæri skoðunum og hagsmunum á óformlegan hátt. En Evrópusambandið er meira en það, það er líka vettvangur fyrir lítil ríki Evrópu. Langflest aðildarríki Evrópusambandsins eru smáríki þótt fæst séu jafn smá og Ísland, þó einhver. Það er líka rödd við borðið þar sem ákvarðanirnar eru teknar fyrir þessi ríki og það er vettvangur fyrir ráðamenn til að hittast og kynnast. Í því sambandi rifjast upp fyrir mér harmsaga úr hruninu sem var símtal fjármálaráðherra Íslands við fjármálaráðherra Bretlands, Árna M. Mathiesen, hæstv. ráðherra á þeim tíma, við Alistair Darling, sem er reyndar nýlátinn. Það símtal fór ekki vel. Það kom seinna í ljós að Alistair Darling vissi raunar ekki við hvern hann var að tala og sagan segir að hann hafi haldið að hann væri að tala við Björgvin G. Sigurðsson sem hann hafði hitt af öðru tilefni. Þetta hefði aldrei gerst ef Ísland hefði verið fullur þátttakandi í Evrópusambandinu.

Nú ætla ég ekki að vera með neina eftirásögu eða hliðarsögu hérna en það sem ég er að reyna að lýsa er það að svona stöðu myndu íslenskir ráðamenn ekki lenda í ef þeir væru fullir þátttakendur í Evrópusambandinu vegna þess að þá myndu þeir hafa hist margoft á fundum og þekkjast persónulega. Staða okkar Íslendinga minnir mig á bænaskjal sem til er á Þjóðskjalasafninu upp á Landsbókasafni frá árinu 1419 til Eiríks konungs af Pommern, danska konungsins á þeim tíma, og er undirritað af Arnfinni Þorsteinssyni hirðstjóra og einhverjum 18, 19 öðrum íslenskum pótintátum með innsiglum þeirra þar sem þeir eru að biðja konung vinsamlegast og náðarsamlegast um að banna ekki siglingar (Forseti hringir.) Englendinga til Íslands. Enn erum við í þeirri stöðu að sitja ekki við borðin (Forseti hringir.) þar sem ákvarðanirnar eru teknar heldur senda bænaskjöl.