154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

NATO-þingið 2023.

634. mál
[16:20]
Horfa

Frsm. ÍNATO (Njáll Trausti Friðbertsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir skýrslu Íslandsdeildar NATO-þingsins fyrir árið 2023, sem er á þskj. 956, mál 634. Mun ég gera grein fyrir starfinu á síðastliðnu ári í stuttu máli og kynna helstu mál í brennidepli á liðnu ári í starfsemi NATO-þingsins.

Ársskýrsla Íslandsdeildar fyrir árið 2023 gerir störfum þingmannanefndarinnar ítarleg skil auk skipan Íslandsdeildar. Ég mun því aðeins stikla á stóru, en vísa að öðru leyti í skýrsluna sem mælt er fyrir.

NATO-þingið er þingmannasamtök sem hefur allt frá árinu 1955 verið vettvangur þingmanna aðildarríkja NATO til að ræða öryggis- og varnarmál. Á síðustu árum hefur aðildar- og aukaaðildarríkjum NATO-þingsins fjölgað ört og starfssvið þess verið víkkað. Störf þingsins beinast í auknum mæli að öryggismálum Evrópu í heild, efnahagslegum og pólitískum vandamálum í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu og hinu hnattræna öryggiskerfi.

Helsta markmið NATO-þingsins er að efla samstöðu og samráð þjóðþinga á sviði öryggis- og varnarmála. Aðild að NATO-þinginu áttu í lok árs 2023 31 þjóðþing en aukaaðild að sambandinu áttu tíu svæðisbundin þingmannasamtök.

Í ársbyrjun 2023 áttu eftirfarandi aðalmenn sæti í Íslandsdeild NATO-þingsins: Sá sem hér stendur, Njáll Trausti Friðbertsson, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Andrés Ingi Jónsson, varaformaður, þingflokki Pírata, og Stefán Vagn Stefánsson, þingflokki Framsóknarflokksins. Varamenn voru Diljá Mist Einarsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Jóhann Friðrik Friðriksson, þingflokki Framsóknarflokksins og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokki Pírata. Á þingfundi 18. september var sú breyting gerð að Jóhann Friðrik tók sæti aðalmanns í stað Stefáns Vagns sem tók sæti varamanns í Íslandsdeild. Íslandsdeild hélt tvo fundi á árinu til undirbúnings þátttöku sinni á fundum NATO-þingsins. Ritari Íslandsdeildar var Arna Gerður Bang alþjóðaritari.

Starfsemi þingsins fer að mestu fram í fimm málefnanefndum; stjórnmálanefnd, varnar- og öryggismálanefnd, efnahagsnefnd, vísinda- og tækninefnd og nefnd um lýðræði og öryggi. Auk þess fer mikið starf fram á vegum Miðjarðarhafshópsins. Þessar nefndir eru meginvettvangur umræðna, þær fjalla um samtímamál sem upp koma á starfssviði þeirra og vinna um þau skýrslur og tilmæli eða ályktanir sem nefndin samþykkir og þingið greiðir síðan atkvæði um. Tilmælum er beint til Norður-Atlantshafsráðsins, sem fer með æðsta ákvörðunarvald innan NATO, og í þeim er hvatt til tiltekinna aðgerða. Ályktunum þingsins er hins vegar beint til ríkisstjórna aðildarríkjanna.

Ég gegndi á árinu starfi aðalskýrsluhöfundar vísinda- og tækninefndar NATO-þingins. Þá var Andrés Ingi Jónsson kjörinn varaformaður undirnefndar lýðræðis- og öryggisnefndar og átti sæti í þingmannaráði Úkraínu og NATO-þingsins.

Þingið kemur saman tvisvar á ári, til vorfundar og ársfundar að hausti. Jafnframt halda nefndir og undirnefndir þingsins reglulega málstofur og fundi á milli þingfunda auk þess sem stjórnarnefnd heldur fundi.

Þótt NATO-þingið sé óháð NATO hafa samskipti þess við bandalagið smám saman tekið á sig fastara form. Á meðal formlegra samskipta má í fyrsta lagi nefna formleg svör við tilmælum þingsins frá framkvæmdastjóra bandalagsins fyrir hönd NATO. Í öðru lagi flytur framkvæmdastjóri bandalagsins ávarp á vorfundum og ársfundum NATO-þingsins og svarar fyrirspurnum þingmanna og í þriðja lagi kemur stjórnarnefnd NATO-þingsins og Norður-Atlantshafsráðið árlega saman til fundar í höfuðstöðvum NATO í Brussel.

Herra forseti. Á vettvangi NATO-þingsins árið 2023 var innrás Rússlands í Úkraínu í brennidepli og var fjallað um hana á öllum fundum. Lýsti var yfir algjörri samstöðu með lýðræðislega kjörinni ríkisstjórn, þjóðþingi og íbúum Úkraínu. Með yfirgangi sínum gegn Úkraínu væru Rússar að leitast við að brjóta niður lýðræðið í landinu, hræða önnur fullvalda lýðræðisríki og grafa undan grunngildum NATO og lýðræðisríkja.

Rúslan Stefantsjúk, forseti úkraínska þingsins, ávarpaði stjórnarnefndarfund NATO-þingsins í mars sl. með fjarfundarbúnaði og kallaði eftir áframhaldandi stuðningi og aðstoð aðildarríkja NATO. Þá óskaði hann eftir því að NATO-þingið beitti sér fyrir framkvæmd Búkarest-ákvörðunarinnar frá árinu 2008 þess efnis að Úkraína fengi fulla aðild að NATO og ítrekaði að landið hefði ekki efni á að bíða eftir því í 15 ár til viðbótar að aðildarumsókn þeirra næði fram að ganga.

Á vorfundum NATO-þingsins í Lúxemborg í maí var stríðið í Úkraínu helsta dagskrármálið. Þingfundur samþykkti tvær yfirlýsingar, annars vegar um hraðari aðlögun NATO á nýjum tímum hernaðarsamkeppni og hins vegar um staðfastan stuðning við Úkraínu. Í fyrri yfirlýsingunni er aðild Finnlands að bandalaginu 4. apríl fagnað og stuðningi lýst yfir við væntanlega aðild Svíþjóðar, sem muni ekki aðeins veita báðum löndunum meira öryggi heldur einnig NATO. Jafnframt er lögð áherslu á að Rússland sé mesta ógnin við öryggi, frið og stöðugleika á Evró-Atlantshafssvæðinu. Í seinni yfirlýsingunni um stuðning við Úkraínu er tilefnislaust og ólöglegt stríð Rússa í Úkraínu fordæmt harðlega og aðildarríkin hvött til að auka bæði hagnýtan og pólitískan stuðning við Úkraínu.

Á ársfundi NATO-þingsins í Kaupmannahöfn var stríðið í Úkraínu enn í brennidepli og ítrekaði þingið enn staðfastan stuðning við lýðræði, sjálfstæði og fullveldi Úkraínu og fordæmdi tilefnislausa og ólögmæta innrás Rússa. Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, ávarpaði fundinn með fjarfundarbúnaði frá Kænugarði og kallaði eftir frekari stuðningi og aðstoð aðildarríkja NATO. Þá lýsti fundurinn yfir samstöðu um nauðsyn þess að styðja Úkraínu linnulaust, næstum 600 dögum eftir að stríðið hófst.

Þá tók Svetlana Tsíkanovskaja, leiðtogi lýðræðisafla í Hvíta-Rússlandi, við viðurkenningu NATO-þingsins sem veitt er árlega og ber yfirskriftina Konur í þágu friðar og öryggis. Hún þakkaði heiðurinn og sérstaklega Íslandsdeildinni fyrir að tilnefna hana til viðurkenningarinnar og veita henni tækifæri til að ávarpa fundinn. Tsíkanovskaja tileinkaði viðurkenninguna þúsundum fangelsaðra og kúgaðra kvenna í Íran, heimalandi sínu og víðar um heim.

Forseti. Öryggisáskoranir á norðurslóðum fengu athygli á árinu og tók ég ítrekað þátt í umræðum um málið og lagði áherslu á aukið mikilvægi svæðisins, m.a. í ljósi bráðnunar jökla, mikils áhuga Kína og aukinnar hernaðarviðveru Rússa. Einnig væri brýnt að gera ráð fyrir því að Rússar bregðist við atburðum líðandi stundar á norðurslóðum en með inngöngu Finnlands og Svíþjóðar í NATO yrðu sjö af átta norðurskautsríkjum aðildarríki. Í umræðum kom fram að NATO leggur aukna áherslu á norðurslóðir og hefur aukið sýnileika sinn og fjölgað heræfingum á svæðinu.

Þá var ég höfundur skýrslu og ályktunar um verndun mikilvægra innviða hafsins og hlutverk tækninnar. Í ályktuninni er lögð áhersla á þörfina fyrir skilvirkt samstarf opinberra aðila og einkaaðila og ríkisstjórnir og þjóðþing hvött til að auka vitund og forgangsraða verndun mikilvægra innviða hafsins og efla viðbúnað.

Af öðrum stórum málum sem tekin voru til umfjöllunar á fundum NATO-þingsins árið 2023 má nefna viðnám og fælingarmátt NATO, netöryggi, málefni Kína og framlög aðildarríkja NATO til varnarmála. Einnig fór fram umræða um innleiðingu uppfærðrar stefnu NATO sem samþykkt var á síðasta ári á leiðtogafundi NATO, þar sem rík áhersla er lögð á grunngildi bandalagsins; lýðræði og frelsi. Enn fremur gaf NATO-þingið út sautján málefnaskýrslur á árinu og sex ályktanir sem nálgast má á vefsvæði NATO-þingsins.

Eins og áður sagði er gerð grein fyrir því sem fram fór á fundum nefndarinnar í fylgiskjölum skýrslu þeirrar sem hér er mælt fyrir og vísa ég til hennar varðandi frekari upplýsingar um störf nefndarinnar.

Ég vil að lokum þakka Íslandsdeildarmönnum NATO-þingsins, þeim Andrési Inga Jónssyni varaformanni, Stefáni Vagn Stefánssyni og Jóhanni Friðrik Friðrikssyni, fyrir gott samstarf á þessum mikilvæga vettvangi og læt að svo mæltu lokið umfjöllun minni um skýrslu Íslandsdeildar NATO-þingsins fyrir árið 2023.