154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

NATO-þingið 2023.

634. mál
[16:36]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir að eiga hér orðastað við mig um þessi mikilvægu mál. Ástæðan fyrir því að mér er þetta ofarlega í huga er kannski ekki síst sú staðreynd að núna þegar stríðið í Úkraínu dregst á langinn, eins og því miður var við að búast, með þeim hörmungum sem því fylgja fyrir íbúa Úkraínu og að einhverju leyti að sjálfsögðu óbreytta borgara í Rússlandi, þá var varað við því að þjóðir heims, og þá sérstaklega hins vestræna heims, yrðu fyrir stríðsleiða, eins og sagt er, að við myndum gleyma því sem væri að gerast og annað myndi taka yfir. Við þessu hef ég varað í ræðum hér á Alþingi en mig grunar að þetta kunni að vera málið. Þess vegna nefni ég kannski sérstaklega þessa frétt frá Noregi og Svíþjóð. Það er rétt sem þingmaðurinn nefnir hér, þjóðaröryggisráð er sannarlega að fjalla um þessa þætti. En kannski má líka bara kalla eftir meiri umræðu almennt, ekki bara hjá þinginu heldur líka úti í samfélaginu, um það hvort við séum nógu vel búin. Það gildir auðvitað einu hvort ógnin steðjar að okkur vegna stríðsátaka eða annarra áfalla sem við getum orðið fyrir og ég held að við þurfum að huga að því.

Til þess að koma með aðra spurningu til hv. þingmanns þá nefndi hann hérna netöryggismálin. Við höfum verið að taka virkan þátt í því á alþjóðagrundvelli en sem herlaus þjóð höfum við kannski minna verið að taka þátt í því sem snýr að hinum hefðbundna hernaði. Þess vegna velti ég fyrir mér hvort núna, með auknu samráði herja á Norðurlöndum, hvort hann sé sammála mér í minni skoðun að Ísland ætti að taka virkari þátt með Norðurlöndunum hvað það varðar