154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

NATO-þingið 2023.

634. mál
[16:38]
Horfa

Frsm. ÍNATO (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Sannarlega hefur verið varað við stríðsleiða, stríðsþreytu, með leyfi forseta, það sem kallað er á ensku „war fatigue“. Við sjáum t.d. núna hvað athyglin hefur farið af Úkraínu síðustu mánuði og í önnur mál; Miðausturlöndin, Gaza og slíka hluti. Það gerðist í byrjun að Rússland ætlaði sér að klára þetta mál í Úkraínu, klára að taka yfir landið á þrem, fjórum dögum. En nú eru þetta að verða tvö ár — ætli þetta séu ekki að verða 700 dagar núna, þetta eru tvö ár eftir þrjár vikur eða svo. Þá skiptir mjög miklu máli að halda uppi umræðunni um þessi mál. Auðvitað hefur hún alveg minnkað hjá okkur og við finnum það hér. Það var miklu meiri umræða um þessi mál í þinginu hér fyrir ári síðan, á þeim þingvetri. Við finnum fyrir því að það er minna rætt um þessi mál núna. Það er hluti af þessum stríðsleiða. Það er annað sem tekur yfir.

Nægilega undirbúin? Nei, ég held að við séum það ekki en ég held að við séum að reyna að bæta úr. Netöryggismálin, fjarskiptin, fæðuöryggi, raforkukerfið, við erum að reyna að byggja upp okkar þjóðhagslega mikilvægu innviði, styrkja þá, sem er gríðarlega mikilvægt, auka áfallaþol þessara kerfa. Það skiptir verulegu máli.

Varðandi hefðbundinn hernað og slíkt hef ég talað um það, síðast hérna fyrr í dag varðandi norræna samvinnu, að það hefur verið mikil umræða á Norðurlöndunum, meðal Dana, Norðmanna, Finna og Svía, að vinna meira saman. Það hefur bara komið fram á síðustu mánuðum. Það eru öflugir flugherir í þessum löndum og það er meira verið að vinna saman. En auðvitað þarf þetta allt að vera á borgaralegum forsendum hjá okkur, við erum ekki með her. En svo sannarlega lít ég mjög til Norðurlandanna (Forseti hringir.) og kannski JEF-landanna, Norðurlöndin, Eystrasaltið, Þýskaland, Holland og Bretland, í þessum andsvörum.