154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

NATO-þingið 2023.

634. mál
[16:51]
Horfa

Frsm. ÍNATO (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni, varaformanni NATO-deildarinnar, fyrir hans ræðu. Nú erum við kannski ekki alveg á sama stað í pólitíkinni varðandi NATO og tilgang NATO og slíkt en það gæti verið forvitnilegt að spyrja hv. þingmann að því, núna þegar hann er búinn að vera að taka þátt í þessu starfi á þessu kjörtímabili og hefur verið duglegur að sækja fundi, er búinn að vera mjög öflugur í því starfi og er, eins og kemur fram, að starfa í hópi NATO og Úkraínu í þinginu: Er þetta öðruvísi heldur en hugmyndir þingmannsins voru um þetta starf áður en hann byrjaði í NATO-starfinu? Hefur þetta eitthvað breytt skynjuninni á þessum málum?

NATO, Atlantshafsbandalagið, er náttúrlega stór hluti í heiminum af kerfinu og pólitíkinni og oft er talað um það út frá lýðræði. Við höfum oft rætt og það hefur komið fram á ráðstefnum í NATO-þinginu — ég man að í Tyrklandi fyrir fjórum, fimm árum var ráðstefna með háttsettum hershöfðingjum og síðan háskólafólki frá stærstu og virtustu háskólum heimsins að ræða ýmislegt og þar á meðal lýðræðið. Það eru 200 þjóðríki í heiminum og sumir sögðu jafnvel að það væru ekki nema svona 40 alvörulýðræðisríki í heiminum. Það voru kannski aðrir sem sögðu að þau gætu mögulega verið 70 sem með góðum vilja mætti kalla lýðræðisríki.

Hvaða stöðu gegnir NATO, Atlantshafsbandalagið, varðandi lýðræði í heiminum, að verja það? Þetta eru nú bara einföldu spurningarnar. Það getur verið fróðlegt stundum að ræða þetta líka út frá því, vegna þess að helstu lýðræðisríki heimsins virðast safnast svolítið fyrir í þessu bandalagi.