154. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2024.

viðbrögð á Norðurlöndum við hælisleitendum frá Gaza.

[15:26]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Eina ferðina enn kemur í ljós hversu ólíkt málum er háttað í þessum málaflokki á Íslandi eða á hinum Norðurlöndunum. Stöku sinnum hafa hæstv. ráðherrar viðurkennt að ástandið væri stjórnlaust og stöku sinnum hafa þeir sagt að þeir þurfi alla vega að vinna að því að færa kerfið hér nær hinum Norðurlöndunum. En hvað stendur til að gera í þeim efnum? Á hvaða hátt verður kerfið á Íslandi fært nær hinum Norðurlöndunum? Verða útlendingalögin endurskoðuð til samræmis við það markmið? Ég ítreka spurninguna um hvað hæstv. ráðherra eða ríkisstjórnin ætli sér varðandi öryggi, sem einhverjum kann að þykja óviðeigandi að spyrja um við þessar aðstæður en það væri mikil værukærð ef við slepptum því, ólíkt öllum öðrum löndum sem taka við fólki frá svæðum þar sem hryðjuverkamenn hafa ráðið ríkjum í hátt í tvo áratugi. Hvaða ráðstafanir munu íslensk stjórnvöld gera til að tryggja öryggi?