154. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2024.

bólusetning gegn mislingum.

[15:50]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil ítreka þakkir til hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur og gríp þessa hvatningu hér á lofti. Ég hef þegar átt samtöl við sóttvarnalækni um að grípa til aðgerða til að sporna gegn frekari útbreiðslu mislinga og nota einmitt tækifærið til að árétta mikilvægi bólusetninga og hjarðónæmis og þá að efla hér bólusetningarþátttöku að nýju og nota tækifærið. Þetta er áminning. Við höfum séð það og fengið fregnir af því að þessi sjúkdómur hefur verið að breiðast út í Evrópu í auknum mæli. Hér kom síðasta mislingasmit 2019 og annað 2014 þannig að þetta hefur verið að láta á sér kræla hér. Við þurfum að gera skurk í þessu og sóttvarnalæknir hefur þegar gripið til aðgerða til að sporna gegn útbreiðslu mislinga og boðið upp á tækifæri fyrir þá sem eru óbólusettir og í kjölfarið þá hyggjumst við einmitt draga lærdóm af þessu og skerpa á.