154. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2024.

orð ráðherra um frumvarp um hagsmunafulltrúa eldra fólks.

[15:52]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Ég er ekki vön að koma hér og taka þátt í störfum þingsins undir þessum lið en nú get ég hreinlega ekki orða bundist. Hér rétt áðan var fyrirspurn frá hv. þm. Jakobi Frímanni Magnússyni til hæstv. ráðherra Guðmundar Inga Guðbrandssonar í sambandi við frumvarp sem ráðherrann átti að leggja hér fram fyrir apríl 2022 og lýtur að hagsmunafulltrúa eldra fólks. Það skiptir engum togum að ráðherrann segir einfaldlega að hann ætli ekkert að koma hér með frumvarp sem feli það í sér að leggja það fram ófullmótað. Samt sem áður breytir það ekki þeirri staðreynd að ráðherrann var nú búinn að fá að vita þetta, þetta var samþykkt 2021 og hann hafði til apríl 2022 til að koma fram með þetta frumvarp. Það að kunna ekki að vinna vinnuna sína, það að vita ekki hver tilgangur framkvæmdarvaldsins er, sem er að fara að vilja löggjafans og framkvæma vilja löggjafans, kallar hann hreinan og kláran popúlisma. Er það svo virkilega að þegar það er verið að kalla eftir því að ráðherrar í þessari ríkisstjórn vinni vinnuna sína af heilindum þá flokkast það undir popúlisma, þegar þeir eru með allt á hælunum? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)