154. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2024.

sólmyrkvi.

602. mál
[17:34]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu og ég ætla ekki að taka þessari fyrirspurn af neinni léttúð. Ég fór sjálfur til Bandaríkjanna fyrir fáeinum árum til þess að gera sjónvarpsþátt um almyrkva á sólu sem þar var og ég held að það hafi tekið okkur meira en tvöfalt lengri tíma að komast á staðinn sem við ætluðum að fylgjast með myrkvanum frá og ég held að við höfum verið þrisvar eða fjórum sinnum þann tíma á leiðinni til baka. Það var umferðaröngþveiti alls staðar þar sem þessi almyrkvi sást. Þetta er stórkostlegt náttúrufyrirbæri. Fólk mun sækjast á stað þar sem dýralíf er mikið vegna þess að við þessar aðstæður þá tekur dýralífið strax við sér. Ég ímynda mér að bæði út af því að myrkvinn mun sjást best og lengst frá Látrabjargi og þar er líka mikið dýralíf þá muni fólk flykkjast þangað. Það kemur gríðarlegur fjöldi ferðamanna gagngert til að sjá þetta. Óvissuþættirnir eru margir út af skýjafari og öðru slíku. En ég held að við ættum að hugsa það í fullri alvöru að vera tilbúin með plan (Forseti hringir.) um það að fólk í þúsundatali muni mögulega sækja á staði sem við erum ekkert endilega vön að sæki á (Forseti hringir.) með litlum fyrirvara. Þannig að ekki er ráð nema í tíma sé tekið.